150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

ársreikningar og hlutafélög.

82. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Þetta er þriðja mál hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar sem ég flyt hérna í dag fyrir hann sökum þess að hann liggur veikur heima. Þetta frumvarp snýr að réttindum borgaranna til aðgangs að upplýsingum sem eru í fórum hins opinbera en almenningur þarf að greiða fyrir að fá aðgang að. Þetta er gamalt og úrelt fyrirkomulag sem þýðir í rauninni að það er háð efnahag hvort maður fær aðgang að opinberum upplýsingum.

Eins og kemur fram í greinargerðinni var frumvarp til laga sambærilegt þessu er varðaði aukinn aðgang að fyrirtækjaskrá samþykkt á Alþingi á 146. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 64/2017. Fólu lögin í sér að veita almenningi aðgang að fyrirtækjaskrá án gjaldtöku. Hér er lagt til að gögn sem tengjast þeim sem er að finna í fyrirtækjaskrá verði gerð aðgengileg á sama hátt.

Í greinargerðinni segir jafnframt að með frumvarpinu sé lagt til að upplýsingar ársreikningaskrár og hluthafaskrár verði aðgengilegri fyrir almenning. Lagt er til að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í þessum skrám og að sömu upplýsingar verði aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr skránni. Þessar upplýsingar geta ekki talist aðgengilegar almenningi miðað við núverandi löggjöf þar sem greiða þarf fyrir þær.

Þetta snertir upplýsingarétt almennings sem við sjáum hvað er mikilvægur. Hann er yfirleitt settur í þrjá flokka, fyrstu kynslóðar upplýsingarétt sem er að maður eigi rétt á að biðja um upplýsingar frá hinu opinbera. Það getur hafnað beiðninni en maður á rétt á að biðja um upplýsingarnar og gæti fengið þær en hið opinbera segir ekki hvaða upplýsingar eru til staðar þannig að maður veit ekki endilega hvort gögnin eða upplýsingarnar eru til. Sem betur fer erum við komin með annarrar kynslóðar upplýsingarétt þar sem við bætist að maður fær að vita hvaða upplýsingar eru í fórum stjórnvalda svo að maður geti beðið um þær sem eru til staðar en það er hægt að hafna beiðninni. Maður þarf alltaf að biðja um þær og svo er hægt að hafna beiðninni.

Þriðju kynslóðar upplýsingaréttur, sem er að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og er ein af ástæðunum fyrir því að Píratar eru hrifnir af henni, merkir að allar upplýsingar í fórum stjórnvalda skulu vera aðgengilegar almenningi án undandráttar. Það má ekki setja einhverjar hindranir í veg fyrir að almenningur fái þær. Þær eru aðgengilegar og hægt að fletta þeim upp. Þetta er ekki mikið mál. Einn aðili er nú þegar búinn að setja upp gagnagrunn, Rel8, Jón Jósef Bjarnason, sem hann er búinn að bjóða stofnunum á Íslandi að kaupa aðgang og taka við þessum gagnagrunni gegn gjaldi þar sem maður getur tengt saman, sett inn kennitölu og séð þá í hvaða fyrirtækjum og félögum viðkomandi hefur átt og aðrar tengingar. Þetta er til þess að gera aðgengileg þau hagsmunatengsl sem liggja fyrir.

Einn maður getur í sínum nördaskap sett upp svona gagnagrunn. Þetta er ekki vandamál, þetta er mjög vel gerlegt. Gögnin liggja fyrir, það þarf bara að setja smávilja í það. Hingað til hefur sú hindrun verið í vegi að stofnanir rukka fyrir þetta en þá þarf náttúrlega bara vilja. Alþingi sýndi vilja á 146. þingi þegar upplýsingar voru gerðar aðgengilegar án endurgjalds eins og ég nefndi áðan. Þetta er bara næsta skrefið í áttina, (Gripið fram í: Í réttu áttina.) í réttu áttina, og ég trúi ekki öðru en að menn stígi þetta skref líka. Þetta er ekki stórt skref en skref í rétta átt sem er hægt að klára áður en þingið fer í sumarfrí.