150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

áætlun um lausn Palestínudeilunnar.

[10:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er gott og blessað að það sé óbreytt afstaða Íslands að við viljum að friðsamleg lausn náist. Þá hljótum við að vilja mótmæla þessari áætlun með einhverjum hætti. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að það sé eitthvað óljóst hvort þessi áætlun stuðli að friði eða ekki. Það er deginum ljósara að hún gerir það ekki, hún stuðlar að ófriði. Það er augljóst, bæði af svörum Palestínumegin og sömuleiðis af umfjöllun þeirra sem fjalla um málið. Þessi áætlun verður ekkert samþykkt friðsamlega, það liggur bara fyrir og er staðreynd hvað sem okkur finnst um það; hún mun ekki stuðla að friði, það þykir mér ljóst. Með hliðsjón af því, ef hæstv. ráðherra getur tekið undir það, hljótum við að vilja mótmæla þessari áætlun með einhverjum formlegum hætti sem þjóðríki sem viðurkennir tilvist og sjálfstæði hins þjóðríkisins, Palestínu, og vitaskuld Ísraels einnig.