150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

greiðslur til sauðfjárbúa.

[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég lýsi mig reiðubúinn til að fara í gegnum þennan regluhaug allan saman. Það er sjálfsagt mál. Ég lít svo á að það sé bara eðlilegt að það liggi fyrir sem gleggstar upplýsingar um ráðstöfun á skattfé og styrkjum sem þessum. Hv. þingmaður orðaði það þannig að það væri nauðsynlegt að veita bændum aðhald en ég held að það sé ekki síður löggjafanum og almenningi nauðsynlegt að hafa slíkar upplýsingar, einfaldlega til þess að geta metið bæði kosti og galla við þær ákvarðanir sem verið er að taka í slíkum samningum. Þannig að já, ég tel eðlilegt að þetta sé skoðað.

Eins og ég nefndi áðan kann ég ekki nákvæmar skýringar á því hvernig stendur á því að ekki er hægt að reiða þetta fram en það er sjálfsagt að bregðast við ítrekaðri ósk og spurningu hv. þingmanns.