150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

örorka kvenna og álag við umönnun.

[11:40]
Horfa

Jónína Björk Óskarsdóttir (Flf):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð annarra og þakka málshefjanda þessa umræðu. Hún er mjög þörf. Einnig vil ég þakka ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hún hefur veitt okkur hér um alla þá uppbyggingu sem fram undan er og vona ég að hún takist farsællega. Í gær var ég að tala hér um forvarnastarf og að við þyrftum að líta miklu meira til þess og nær okkur, þ.e. að byggja upp forvarnastarf, og þá á ég ekki bara við aldraða heldur alla aldurshópa. Þegar við erum að horfa á börnin okkar gleymist miðhópurinn, hann á að sjá um sig sjálfur, og aldraðir eiga að sjá um sig sjálfir og hafa vit fyrir sér og hreyfa sig, en það þarf örvun og hvatningu.

Það sem hér er rætt í sambandi við uppbyggingu á hjúkrunarheimilum gleður hjarta mitt því að við horfum allt of oft upp á fjölskyldur koðna niður vegna umönnunar foreldra, jafnvel beggja foreldra. Börn þessara foreldra hafa tekið á sig mikla ábyrgð. Það sem ég sé í sambandi við aldraða er uppbygging á dagvistarrýmum, sem mér finnst alveg bráðnauðsynleg. Það er það sem ég segi að geti í flestum tilfellum haldið fólkinu mun lengur heima. Það heftir hvorugan aðilann, sem er stór þáttur í þessu. Þetta er líka ódýrasta úrræðið. Við höfum séð það innan fjölskyldugeirans hvað það hefur mikið að segja.