150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 –2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[11:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir ræðu hans og skýrsluna sem hér er til umræðu, um nýtingu og vistfræðilega þýðingu loðnustofnsins á árunum 2000–2019. Ég var 1. flutningsmaður þingmálsins sem fól í sér skýrslubeiðnina en ásamt mér voru 16 þingmenn úr Flokki fólksins og Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum með á málinu. Ég vona að mér fyrirgefist að telja þau ekki öll upp hér því að ræðutíminn er naumur.

Beiðni um þessa skýrslu var lögð fram 18. mars í fyrra þegar ljóst var að engin loðnuveiði yrði á síðasta vetri. Lagðar voru fram 17 spurningar með það í huga að fá heildarmynd yfir það hvað gerst hefur í veiðistjórnun og nýtingu á loðnustofninum allt frá aldamótum. Ég vil þakka starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Hagstofu fyrir þeirra greinargóðu svör.

Nú er ljóst að dökkar horfur eru í loðnuvertíð í vetur og mjög umfangsmikil leit nú í janúar austur, norður og vestur af landinu skilaði litlu sem engu. Það er mjög alvarlegt áfall fyrir atvinnulíf og efnahag þjóðarinnar þegar fiskstofn á borð við loðnu hrynur. Það er ekki hægt að tala um neitt annað en hrun, virðulegur forseti, þegar lítið eða ekkert er hægt að veiða úr næststærsta nytjastofni þjóðarinnar um árabil og framtíðarhorfur varðandi nýtingu stofnsins eru dökkar. Í þessari skýrslu, á bls. 177, kemur fram að loðnan hefur að jafnaði staðið fyrir nálega 10% af árlegu heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða frá aldamótum, árlegu verðmæti sem hleypur á tugum milljarða. Hrun loðnustofnsins er fjárhagslegt reiðarslag, ekki bara fyrir þjóðarbúið, ríki og sveitarfélög, heldur líka fyrir landsbyggðina, íbúa í sjávarbyggðum, svo sem á Austfjörðum, Hornafirði og í Vestmannaeyjum og víðar.

En það eru fleiri þættir í myndinni. Loðnan skiptir líka afar miklu máli fyrir vistkerfi í náttúru Íslands, bæði fyrir sjófugla en ekki síður lífríkið í hafinu. Hún er mikilvæg fæða fyrir aðra stofna fiska og hryggleysingja og þar ber helst að nefna þorskinn sem er okkar verðmætasti nytjastofn. Þegar rætt er um loðnustofninn þarf því að hafa marga þætti í huga. Það var beðið um þessa skýrslu svo að Alþingi mætti fá upplýsingar sem gætu hjálpað til við að takast á við þann vanda og þær hættur sem hrun loðnustofnsins hefur í för með sér.

Þegar skýrslan er lesin vakna ýmsar spurningar. Í henni kemur glöggt fram að gríðarmiklum tíma og fjármunum hefur verið eytt í loðnuleit í gegnum tíðina, finna og mæla loðnu svo að hægt væri að gefa út kvóta. Einhvern veginn þykir mér sem minna hafi farið fyrir líf- og vistfræðilegum rannsóknum á loðnustofninum. Loðnan er búin að vera í vandræðum í töluverðan tíma, nýliðun léleg nánast í hverjum einasta árgangi frá árinu 2001, eins og sjá má á bls. 15. Hrun loðnunnar er ekki nýhafið. Það hófst þá. Því verður ekki einvörðungu skellt á loðnar útskýringar um umhverfisbreytingar og hlýnun í hafinu. Við lestur þessarar skýrslu vakna nefnilega grunsemdir um að við Íslendingar höfum ekki verið til fyrirmyndar í nýtingu loðnustofnsins og það sé nú að koma okkur rækilega í koll.

Allt frá árinu 2005 fer að draga mjög úr útgefnum loðnukvótum vegna þess að það mælist ekki mjög mikið af loðnu, eins og sjá má á bls. 5. Heildartillögur náðu síðast milljón tonna kvótanum árið 2003 en síðan hefur hann alltaf verið minni. Síðustu árin fyrir algert veiðibann var hann langt undir 500 þús. tonnum. Spyrja má hvort ekki hefði verið tilefni til alveg sérstakrar varúðar þegar loðnukvóti var aðeins á bilinu 173.000–285.000 tonn eins og á árunum 2015–2018 þar sem menn leituðust við að veiða sem mest til hrognatöku. Þessi litli fiskur var veiddur upp loks kominn að hrygningu til að ná úr honum hrognunum sem áttu að verða undirstaða fyrir nýja kynslóð loðnu. Voru þetta alvarleg og afgerandi mistök? Var gengið of nærri hrygningarstofninum? Hefði verið réttara að banna veiðar til að tryggja að sem mest af þeirri litlu loðnu sem þá var til fengi að hrygna í friði? Voru gerð mistök í veiðiráðgjöf og veiðistýringu? Var þetta rányrkja? Í kjölfar þessara ára verður algjör nýliðunarbrestur og stofninn hrynur.

Annað sem vekur athygli mína, virðulegi forseti, er það að gegndarlausar loðnuveiðar með flotvörpu hafi verið leyfðar norður og austur af landinu, eins og sjá má á bls. 6 og 8 í skýrslunni. Þá er loðnan á göngu norðan úr höfum suður með Austfjörðum. Segja má að þetta sé eitt mikilvægasta skeið hrygningargöngunnar. Þarna hafa menn kosið að mæta henni með dregnum veiðarfærum og hér voru Íslendingar langstórtækastir. Ég fæ ekki betur séð af töflu á bls. 193 í skýrslunni en að af heildarloðnuveiðum upp á 9 milljónir tonna frá aldamótum höfum við Íslendingar veitt tæpar 2 milljónir tonna í flottrollið eða sem nemur um fimmtungi. Flotvörpuveiðarnar eru mjög umdeildar. Það heyrir maður vel ef rætt er við sjómenn. Fullyrt er að þær sundri torfum og trufli göngu þeirra. Fiskur drepst við að fara í gegnum möskva, rannsóknir skila óljósum niðurstöðum. Hvers vegna í ósköpunum er loðnan ekki látin njóta vafans, beitt varúðarreglu sem annars er talin til góðra gilda í náttúruvernd og flottrollsveiðarnar bannaðar? Menn geta bara veitt loðnuna í nót sem er allt annað veiðarfæri en troll. Nótin lokar af torfu að hluta eða hluta úr torfu en sundrar henni ekki eins og flottrollið. Hér áður fyrr var öll loðna einvörðungu veitt í nætur og það gekk alveg ágætlega. En nú skal endilega skarkað í henni með risastórum togveiðarfærum á öflugustu fiskiskipum sem við höfum séð í kringum landið þegar hún er að ganga upp að landinu. Hverjum dettur eiginlega í hug að leyfa svona lagað?

Við skulum athuga það, virðulegi forseti, að nýting loðnustofnsins snýst öðrum þræði um vernd á náttúru og lífríki landsins Íslands. Með loðnuveiðunum erum við að fikta í viðkvæmu úrverki, sjálfum vélbúnaðinum sem knýr áfram gangverkið í því sem hafa verið ein auðugustu fiskimið í heimi. Hvað er það sem gerir þennan litla og næringarmikla laxfisk svo mikilvægan? Jú, við skulum aðeins leiða hugann að því, og nú vona ég að þingheimur hlusti, að á hverju ári verður stórkostlegt ævintýri að veruleika í Íshafinu norður af Íslandi þar sem kaldir straumar úr Dumbshafi mæta hlýrri sjávarstraumum að sunnan. Þarna er geysileg frumframleiðni og næringarframleiðsla í sjónum á vorin og sumrin þegar dagsbirta og sól er nánast allan sólarhringinn. Þarna verður loðnan til, þéttvaxinn en lítill fitu- og orkuríkur fiskur sem verður til við að éta svifdýr. Við eðlilegar aðstæður verður geysimikil næring til í þessum fiski. Eftir að framleiðslutímanum er lokið seint á haustin hefur þessi fiskur göngu suður á bóginn upp að Íslandi. Hann á að öllu jöfnu að ganga suður með Austfjörðum eftir landgrunninu við suðurströndina inn á Faxaflóa og Breiðafjörð þar sem hann hrygnir og drepst. Eitthvað af loðnu kemur líka norðan úr höfum beint upp að Norðurlandi eða gengur suður með Vestfjörðum. Allt þetta gerist á svipuðum tíma og þorskurinn okkar er að fara að hrygna og hann þarf næringu til að eiga fyrir henni ef ekki á illa að fara. Loðnugöngur eru sjálf vélin sem flytur næringu og orku úr framleiðslu Íshafsins inn á íslensku grunnslóðina. Þetta er ein helsta undirstaða lífríkisins. Því þó að þessi loðna hrygni og drepist þá fer hún ekki út úr kerfinu. Hún verður mikilvægt æti fyrir aðrar lífverur sem mynda vistkerfið í hafinu allt árið um kring. Þetta verða menn að fara að skilja. Ef við þurrkum upp loðnuna þá spörkum við stoðunum ekki bara undan efnahag heldur líka undan sjálfu lífríkinu.

Loðnan hefur afar mikla þýðingu sem æti fyrir þorsk, ekki bara þegar þorskurinn er að alast upp heldur líka þegar hann er að undirbúa hrygningu. Það er ekki einleikið hve okkur hefur gengið illa að byggja upp þorskstofninn. Það er heldur ekki einleikið að þrátt fyrir að stjórnvöld státi sig af því að nýta fiskimiðin samkvæmt vísindalegri ráðgjöf eru margir aðrir nytjastofnar en loðnan hrundir. Hér má nefna humarinn og rækjuna sem eru tegundir sem lifa af lífrænum úrgangi á hafsbotni eða rétt yfir botninum. Eru kannski tengsl milli hruns þessara stofna og hruns loðnunnar? Þorskurinn okkar er nú að öllum líkindum í niðursveiflu. Vísitölur í togararöllum að hausti og vori fara hratt lækkandi eins og sjá má af nýrri skýrslu Hafró. Ekki kæmi á óvart þótt þorskkvótar yrðu minnkaðir verulega á þessu ári. Við sjáum að þorskurinn hefur miklu minna af loðnu að éta nú en áður. Er þorskurinn að dala nú þegar loðnan er hrunin?

Virðulegi forseti. Klukkan tifar hratt og synd hve lítinn tíma Alþingi fær til að tala um þetta afar mikilvæga mál sem er staða loðnunnar og lífríkisins í víðum skilningi. Hér hef ég aðeins náð að tæpa á nokkrum atriðum, hefði viljað tala um hvali og afkomu sjófugla. Ég vil líka mælast til þess að gert verði stórátak í hafrænum vistfræðirannsóknum á loðnu hér við land.