150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

fullgilding Haag-samningsins frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum.

147. mál
[13:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Þetta er í rétta átt. Það að það séu alvarleg viðurlög við þessari tegund stríðsglæpa er mjög viðeigandi eins og með aðrar tegundir stríðsglæpa. Skaði sem hlýst af getur verið óendanlega mikill, t.d. með minjarnar í Palmyru sem voru eyðilagðar af Isis fyrir nokkrum árum og Búdda-líkneskið í Bamiyan, og þá glatast menningarverðmæti sem verða aldrei bætt jafnvel þótt þau yrðu endursmíðuð í svipaðri mynd eins og var gert í Mostar.

Kannski er þetta nóg en þá verður maður að vísu líka að taka með í reikninginn að ekki eru öll lönd aðilar að Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag. Kannski hafa einkum Bandaríkjamenn skorast undan því að vera sóttir til saka, þ.e. að bandarísk yfirvöld hafi ekki stutt það ferli að til sé alþjóðlegur stríðsglæpadómstóll sem getur tekið á svona málum. Í ljósi umsvifa bandaríska hervaldsins á heimsvísu er það tilefni til ákveðinna áhyggja.

En þetta er sennilega besta svarið sem er í boði í augnablikinu þannig að ég þakka hv. þingmanni fyrir það.