150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

299. mál
[13:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Örnu Láru Jónsdóttur fyrir framsöguna og þakka henni fyrir að flytja þetta ágæta mál. Eins og þingmanninum er kunnugt um hafa Álftfirðingar og Skutulsfirðingar í langan tíma þurft að búa við það að eiga erfitt með að komast í heimsókn hverjir til annarra. Til að gera þeim það kleift eftir öðrum leiðum en á sjó og landi var sprengt gat á Arnarneshamarinn 1949 og munu þau göng vera elstu veggöng á Íslandi en jafnframt þau stystu, 30 metrar eða svo. Eins og þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni hefur lengi verið talað um gangagerð þarna á milli og þá oftast verið talað um að fara úr botninum á Álftafirði og gjarnan talað um að fara yfir í Engidal. Það eru líka til aðrar leiðir og það sem mig langaði í fyrra andsvari að biðja þingmanninn að ræða um er hvort henni væri kunnugt um hvaða leið menn væru núna helst að tala um, í gegnum hvaða haft menn væru þá að velta fyrir sér að stinga (Gripið fram í.) og líka hvað mætti ætla að þau göng væru þá löng. Ég held að okkur flestum sem höfum gengið og keyrt og búið á þessu svæði finnist ekki vera neitt rosalega löng vegalengd þarna á milli og ætti þess vegna í hugum margra að vera tiltölulega lítið mál að gera þetta. En hvaða leiðir eru menn helst að hugsa um þessa dagana?