150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

299. mál
[13:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég bað um andsvarið hélt ég að enginn hefði kvatt sér hljóðs en spurningunni sem ég ætlaði að bera upp er búið að svara að hluta til. Ég vil engu að síður nýta tækifærið til að taka undir með hv. þm. Örnu Láru Jónsdóttur um þessa tillögu um gerð jarðganga á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Ég horfi reyndar á þetta þannig að við Íslendingar eigum á næstu árum og áratugum að vera með u.þ.b. tvenn jarðgöng í gangi á hverju ári, að þangað til við erum búin að byggja upp umferðarmannvirki og umferðaröryggi verðum við að gera það en ekki síður, hvort sem við tölum um sameiningu sveitarfélaga eða ekki, að við verðum að fara að tala af meiri festu og meiri forgangsröðun um ákveðna íbúa og byggðakjarna. Við þurfum að þétta raðirnar á norðanverðum Vestfjörðum og núna, þegar við sjáum vonandi í haust að við opnum Dýrafjarðargöngin, er synd að Dynjandisheiðin skuli ekki vera kláruð í leiðinni. Við þurfum að hugsa þetta heildstætt. Á fundi okkar Viðreisnarþingmanna þegar við vorum fyrir vestan komu þessi göng til umræðu, að tryggja umferðaröryggi, m.a. til Súðavíkur, setja Súðavíkurgöngin á dagskrá, ekki síst út frá umferðaröryggi. Ég dreg líka fram þungann í því að bæta og efla kjarnann sem slíkan á norðanverðum Vestfjörðum, ekki síst í ljósi þess að ég sé starfsemina þar eflast á næstu árum. Við sjáum ýmsa starfsemi verða enn öflugri með hverju árinu, eins og t.d. Örnu í Bolungarvík. Við horfum upp á laxeldið og fleiri þætti sem munu auðvitað styrkja Vestfirði en það kallar á að við þurfum að huga að innviðum. Það er ábyrgð ríkisvaldsins og þá hlutverk okkar þingmanna að leggja fram svona tillögur. Mér finnst þessi góð og ég styð hana.