150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

gerð jarðganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar.

299. mál
[13:51]
Horfa

Flm. (Arna Lára Jónsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Þorgerði Katrínu fyrir andsvarið. Þetta er hárrétt sem hún nefnir, atvinnuvegirnir vestra eru að styrkjast, við horfum á fjölmörg tækifæri í atvinnulífinu, og þá skiptir máli að vera með góða innviði. Ég nefndi það ekki í framsögu minni en það eru náttúrlega miklar hugmyndir í gangi í Súðavík um að koma á fót kalkþörungaverksmiðju sem verður frekar umfangsmikil og með töluvert marga starfsmenn í vinnu. Það mun auka umsvif alls svæðisins og við horfum líka á mikla uppbyggingu í laxeldi þannig að við þurfum að hafa greiðar og öruggar samgöngur. Nútímasamfélag og þjóðfélagið er þannig að við þurfum að komast örugglega á milli staða. Við eigum svo mörg dæmi um það að ekki hefur farið vel þegar fólk fer um þessar hlíðar og fólk veigrar sér við að fara um þær af því að þetta er ekki bara þegar veður er vont yfir sumartímann. Vandinn með Súðavíkurhlíðina er að grjóthrunið er ekki síður vont af því að við erum ekki með mæla til að mæla það. Grjótið hrynur bara. Við erum með snjóflóðamæla sem vara okkur við hættunni en grjóthrunið er að einhverju leyti erfiðara af því að við erum ekki eins viðbúin. Það verður allt eins á rigningardegi á haustin og í leysingum á vorin. Síðustu árin eigum við ansi slæm dæmi um það þar sem fólk veltir bílum og lendir ofan í fjöru af því að það hefur keyrt á björg.

Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið.