150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

302. mál
[14:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er gleðilegt að komin sé fram á þingi tillaga um Tröllaskagagöng. Mig langar að spyrja út í það sem snýr að því hvernig við ættum að samþætta samtalið og stækka það svolítið hvort ekki væri eðlilegt að sveitarstjórnarmenn, bæði á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra, á Eyþingssvæðinu — sem ég held að megi ekki kalla Eyþing núna, það er verið að finna eitthvert nafn á þetta — Eyjafjarðarsýslurnar og Þingeyjarsýslurnar, með Skagafirðinum og Húnavatnssýslunum, og samtökin á þessum svæðum tækju málið efnislega fyrir í stóra samhenginu og færu í gegnum það hvernig menn ætla að leysa málin gagnvart Tröllaskaganum og þeim farartálma sem hann er, eins og við þekkjum síðustu vetur. Þetta er veðurfarslega búið að vera býsna erfitt og færðin erfið. Þarf þetta samtal ekki að fara fram? Ég skrifaði grein í Vikudag á Akureyri í september um nauðsyn þess að Eyþingssvæðið myndi móta sína eigin samgöngustefnu fyrir fjórðunginn eða það landsvæði sem þar er undir. Það hefur aldrei verið gert, ýmsir aðrir landshlutar hafa unnið slíkar stefnur og væri eðlilegt að skoða þetta.

Hv. þingmaður og meðflutningsmaður hans í málinu eru báðir sveitarstjórnarmenn á Norðvesturlandi. Hvernig getum við náð þessu samtali og dýpkað á svæðinu í stærra samhengi?

Ég er upptekinn af heildarmyndinni sem er líka Siglufjarðargöngin yfir í Fljótin frá Siglufirði. Ég er upptekinn af Dalvík og Ólafsfirði. Ég er upptekinn af Hörgárdalnum yfir í Norðurárdal eða möguleikum undir Öxnadalsheiðina, annaðhvort 4 km undir Bakkaselsbrekkuna eða 10 km göngin, lengri kostinum. Síðan er ég búinn að vera áhugamaður um þessi göng í 15–20 ár frá því að tengdafaðir minn vann á Hólum sem fjármálastjóri. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann hvort við gætum dýpkað samtalið.