150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

302. mál
[14:05]
Horfa

Flm. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég er algjörlega sammála honum í því að auðvitað eigum við að reyna að horfa á málið í eins stóru samhengi og hægt er og skoða heildarmyndina. Ég er algjörlega sammála honum í því. Það er hárrétt sem hann kemur inn á að í umræðunni og hjá Vegagerðinni eru líka göng úr Fljótum yfir í Siglufjörð sem eru sömuleiðis göng í gegnum Tröllaskaga. Ýmsar aðrar leiðir hafa verið ræddar. Þetta er hins vegar sú leið sem sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa sett í sín áform sem helstu áhersluatriðin og sem menn leggja mesta áherslu á og sjá mestu hagræðinguna og hagkvæmnina í, að fara í þessi göng. Sveitarstjórn Akureyrarbæjar var sömuleiðis sammála okkur í því að þetta væri stærsta málið. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því og tek undir að ég held að það sé mikilvægt að landshlutasamtökin setjist niður og skoði heildarmyndina.

Samtalið milli landshlutasamtaka á Norðurlandi vestra og yfir í Eyjafjörðinn hefur ekki verið mikið. Kjörndæmalínan liggur einmitt um Öxnadalsheiðina og hún virðist vera meiri farartálmi en hún ætti að vera. Ég held líka almennt að það sé mjög mikilvægt að landshlutasamtökin á Norðurlandi tali betur saman, ekki bara um þetta mál heldur um mjög margt, vegna þess að hagsmunirnir eru mjög miklir á Norðurlandi öllu. (Forseti hringir.) Ég tek bara undir þetta.