150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

302. mál
[14:08]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek að mörgu leyti undir að segja megi að kjördæmaskipanin sé mjög erfið á Norðurlandi og að Tröllaskaginn kljúfi svolítið í tvennt hagsmunamál fyrir Norðurland. Það er hárrétt að mínu mati. Ég viðurkenni að ég er töluverður nörd í samgöngumálum, þau hafa alltaf verið mikið áhugamál hjá mér. Þegar maður situr síðan í fjárlaganefnd fer maður að hugsa sitt og maður heyrir margar kynningar og hitt og þetta. Nú eru fjarðagöngin komin í umræðu, í skýrslu sem kom út í vetur, 13,2 km á lengd. Slík göng eru talin kosta 35 milljarða. Ef farið yrði úr Barkárdal og yfir Hofsdalinn yrðu þau 20 km. Svo man ég ekki lengdirnar ef við færum Skíðadalinn eða Svarfaðardalinn og yfir í Kolbeinsdalinn úr Hörgárdalnum. Maður er að reyna að átta sig á heildarsamhengi hlutanna, en í fyrri umr. í málinu á undan kom hugmynd um 37 km göng. Nú held ég að búið sé að toppa þetta en það er alltaf gaman að velta þessum hlutum fyrir sér.

Ég er mjög upptekinn af þessari heildarmynd með fjármagn og hvernig það nýtist til að hámarka hitt og þetta. Ég held að Siglufjarðargöngin verði að koma en kannski þurfi jafnvel fyrst að huga að Dalvík/Ólafsfirði. Múlagöngin eru mjög vondur farartálmi og staðsetningin á þeim eins og við þekkjum og hvernig þau hafa nýst okkur í 30 ár. Ég fagna klárlega samtali um þessi mál og svo sannarlega að við dýpkum samtalið um hagsmunamál á Norðurlandi þó að Tröllaskagi og kjördæmamörkin séu á milli okkar.