150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

302. mál
[14:10]
Horfa

Flm. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum andsvarið öðru sinni. Lengdin á göngunum er eitt af því sem við erum að óska eftir að verði skoðað, þ.e. nákvæmlega hver lega þeirra eigi að vera. Menn hafa rætt um nokkrar leiðir, allt frá 16 km upp í kringum 20, ef ég man rétt, en nákvæm útfærsla og nákvæm kílómetratala er ekki komin. Það er það sem við erum að biðja um. Við höfum verið að ræða þetta á þessu svæði í mörg ár og við höfum fengið ýmsa sérfræðinga til okkar sem sumir segja að þetta sé mjög gerlegt, aðrir að þetta sé ógerlegt. Það sem við erum bara að kalla eftir er að þetta verði skoðað og að við fáum niðurstöðu í það hvort þetta sé gerlegt, hvað það kosti og hvort hægt sé að setja málið á áætlun. Ef niðurstaðan er að þetta sé allt of dýrt eða ógerningur á einhvern hátt er það bara niðurstaða í málinu og þá þurfum við að fara að horfa á aðrar leiðir. Ég er hins vegar algjörlega sannfærður um að þegar menn horfa á heildarmyndina, bæði samfélagslegu og hagrænu áhrifin plús vegstyttingarnar og öryggisþáttinn, sem er gríðarlegur, muni menn komast að þeirri niðurstöðu að hér sé um mjög skynsamlega framkvæmd að ræða sem á eftir að stórefla Norðurland allt sem eitt svæði. Ég verð mjög spenntur að sjá niðurstöðu úr þessari vinnu sem ég vona svo sannarlega að komist í framkvæmd sem allra fyrst.