150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

302. mál
[14:12]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þann áfanga að nú hefur verið mælt fyrir tillögu minni og frummælandans. Það var mikill áfangi að koma fram með þessa tillögu og næsti áfangi var að fyrir henni yrði mælt hér. Núna fer hún til þinglegrar meðferðar og umsagnar og ég vonast eftir að unnið verði hratt og vel og með jákvæðum huga að því sem þar er lagt upp með, enda er þess aðeins æskt í fyrstu umferð að farið verði yfir mismunandi valkosti, hversu raunhæfir þeir eru, framkvæmanlegir og kostnaðarsamir. Eins og hér hefur komið fram er þetta gríðarleg samgöngubót fyrir Miðnorðurland og ekki síður Norðurland allt, að tengja það saman aftur. Það er mikið hagsmunamál sem við sjáum að muni tengja betur og styrkja byggð á mjög stóru svæði, þjónustusókn, atvinnusókn og samfélagið allt, og líka að forða okkur frá því að þurfa að treysta á fjallvegi sem hafa reynst talsvert erfiðir eins og í vetur. Það er enn og aftur áminning um mikilvægi þess að eiga aðra valkosti en að vera með héruðin lokuð af eins og hefur gerst dögum saman á undanförnum vikum og hefur skapað hættuástand.

Vonandi er líka fram undan frekara samtal milli landshlutasamtaka á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra um þetta mál. Það hlýtur að gerast í framhaldinu og mikilvægt að Akureyrarbær taki þátt í því með Skagfirðingum að mæla með slíku verkefni. Þess er skemmst að minnast að á sínum tíma voru mjög öflug samtök á Norðurlandi, Fjórðungssamband Norðlendinga, og þá unnu menn virkilega saman og horfðu á hagsmuni Norðurlands alls. Síðan skiptist það upp í tvenn samtök og kannski er ástæða til að horfa enn frekar á hvernig við getum tengt svæðin betur saman.

Ég tek líka undir að það er mikilvægt að hafa heildarmyndina en samt ekki missa fókusinn á það sem við erum að tala fyrir hér. Það er sjálfsagt að velta fyrir sér ýmsum öðrum samgöngubótum í landshlutunum. Það væri ákaflega ánægjulegt ef menn tækju stór skref í að greina þá valkosti sem hér er óskað eftir að verði gert. Ég vil enn og aftur lýsa ánægju minni með þann áfanga að búið sé að mæla fyrir þessu máli og að það muni fá þá faglegu meðferð sem fram undan er.