150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir ræðuna. Ég get ekki sagt að ég sé algjörlega sammála öllu sem þingmaðurinn sagði (Gripið fram í.) enda er það í sjálfu sér ekki það sem maður sækist endilega eftir í öllum okkar ræðum, að vera sammála um allt. Eitt sem þingmaðurinn kom inn á sem ég held að sé alveg hárrétt hjá honum er að starf þingmannsins er ekki bara innan veggja þingsins. Margir myndu halda því fram að jafn mikilvægur þáttur í starfinu væri samband við kjósendur og tækifæri til að hafa það samband. Þá komum við einmitt að tengingu þessa sambands við tillöguna. Ef við högum störfum okkar hérna inni þannig að þeim hluta vinnudagsins sem fer fram hér ljúki á skikkanlegum tíma er auðveldara fyrir okkur að skipuleggja samneyti við kjósendur okkar. Það er auðveldara fyrir okkur að halda fundi og komast í þetta samband sem ég er sammála þingmanninum um að er mjög eftirsóknarvert, þetta tækifæri til að rækja þann hluta starfsins sem er ekki í pontu Alþingis eða úti á nefndasviði, samskiptin maður á mann sem eru svo dýrmæt.

Er þingmaðurinn ekki sammála mér um að með betra skipulagi hérna innan húss, sem hann kom reyndar inn á í sínu máli að væri hægt að gera, og segjum sem svo að við gerðum það, væri tækifæri til að auka virðingu þingsins og bæta í þennan þátt þingmannsstarfsins sem við erum greinilega sammála um að sé mikilvægur?