150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[14:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á, a.m.k. hef ég tekið eftir því að í mörgu er þingmaðurinn nokkuð íhaldssamur og kannski ekki alltaf til í gassalegustu breytingarnar á fyrirkomulagi hlutanna. Það er allt í lagi, við þurfum ekki öll að vera eins og það væri eiginlega verra ef við værum þannig. Það er engu að síður þannig að með því að skipuleggja okkur hérna, eins og þingmaðurinn hefur ítrekað komið inn á, búum við til svigrúm. Jafnvel íhaldssömustu stofnanir þróast, meira að segja þjóðkirkjan sem má segja að sé frekar íhaldssöm stofnun þróast smátt og smátt. Ég er ekki að segja að Alþingi sem vinnustaður, ef við getum kallað Alþingi vinnustað, þróist ekki smátt og smátt en að mínu viti þarf það ekki að gerast á hraða snigilsins. Það þarf að gerast ígrundað. Það þarf að vera samkomulag um það og ég tek undir það með þingmanninum að ekki má stíga harkalega á réttindi þingmanna til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég skal alltaf standa með þingmanninum í þeirri varðstöðu.

Það væri hægt, eins og þingmaðurinn kom sjálfur inn á, að gera meira í því að þingflokkar semdu um lengd á umræðum, að þingflokkar kæmu betur undirbúnir til sumra mála til að umræðan gæti verið gagnlegri, kjarnyrtari og skilað okkur lengra áleiðis.