150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

málefni flóttamanna og hælisleitenda.

[15:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að um þessi mál á að gilda jafnræði og við verðum að tryggja það. Það er skýr vilji löggjafans og stjórnvalda að taka sérstakt tillit til hagsmuna barna hvað varðar umsóknir um alþjóðlega vernd. Það höfum við m.a. sýnt með ýmsum breytingum á reglugerðum undanfarna mánuði, en lögin okkar eru líka slík. Af því að hv. þingmaður spyr af hverju stjórnvöld grípi ekki oftar inn í, eða hvað þurfi til til að gripið verði inn í, þá höfum við búið þannig um hnútana að við höfum kærunefnd útlendingamála. Hún er sjálfstæð og úrskurðir hennar eru endanlegir. Henni var m.a. komið á fót til að bregðast við gagnrýni, m.a. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossi Íslands. Hún hefur heimildir til að yfirfara úrskurði Útlendingastofnunar og er sjálfstæð í þeim efnum. Það er mikilvægt að þessi mál fari í faglegan farveg hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála og að málsmeðferð sé ekki löng. Við höfum markvisst unnið að því að stytta málsmeðferð til hagsbóta fyrir það fólk sem sækir um þannig að það geti fengið skýrari svör, hvort sem svarið er já eða nei. Við höfum séð virkilegan árangur í því. Þau mál sem að meðaltali taka lengstan tíma, sem eru efnismeðferðarmálin, eru komin undir sjö mánuði. Við viljum fá þann tíma enn neðar og því eru það afar sjaldgæf og afar einstök mál sem fara lengra og eru lengur í meðferð íslenskra stjórnvalda. Í því máli sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega er það þannig að íslensk stjórnvöld, Útlendingastofnun og kærunefnd, afgreiddu það þó innan þess 18 mánaða frests sem við höfum sett okkur sem ég hef boðað að verði 16 mánuðir þegar málefni barna eru annars vegar.