150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

útlendingastefna.

[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að byrja hér í þessum stóli að hrósa hæstv. dómsmálaráðherra. Sama hvað verður sagt, og það er hægt að gagnrýna mjög margt, þá voru mikilvæg skref tekin í gær. Mér finnst þau ekki nógu stór en þau voru mikilvæg, þau snertu eina fjölskyldu. Það er það sem er kannski þegar upp er staðið kaldhæðnislegt, við stöndum alltaf frammi fyrir því að þurfa að leysa sértæk mál af því að Sjálfstæðisflokkurinn ekki síst, sem hefur farið með dómsmálaráðuneytið, leggur ekki fram lausnir, leggur ekki fram heildarsýn og heildarbreytingar í átt að því að gera kerfið okkur mannúðlegra.

Hér er enginn að tala um stjórnlausa útlendingastefnu. Það er verið að tala um mannúðlegri útlendingastefnu, að kerfið verði fyrir fólkið, það verði mennskara en ekki að kerfið sé bara fyrir kerfið sjálft og einhverja harðhausa og afturhaldsöfl sem því fylgir. Þannig að um leið og ég hrósa hæstv. dómsmálaráðherra, ég vil gera það mjög, vil ég segja við hana að ég óttast það, þekkjandi forsöguna og við horfum núna á hvernig þetta allt saman er, að hæstv. ráðherra sé eyland að vissu leyti í sínum flokki hvað þau mál varðar. Ég vil láta hana vita að hún á stuðning Viðreisnar í því að breyta lögunum í þá veru að þau verði einmitt mennskari og mannúðlegri.

Það er ekki síst hvatning frá Rauða krossinum sem segir að þetta sé vissulega mikilvægt skref — þetta er í rauninni bara plástur — en það eigi ekki bara að skoða fresti á málsmeðferð heldur eigi ekki síst að skoða heildardvalartíma fjölskyldna og einstaklinga. Ég spyr í fyrsta lagi hvort hæstv. ráðherra ætli sér að beita sér þannig í málinu.

Í öðru lagi langar mig líka til að vita hvort hæstv. ráðherra hafi verið boðaður á fund þingflokks Vinstri grænna, forystuflokksins í ríkisstjórninni, til að fara yfir þessi mál, hvort þingflokkur Vinstri grænna hafi kallað ráðherra til sín til þess að lýsa yfir áhyggjum og hvetja hana til dáða í þessu máli.