150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vinda mér beint í svörin svo ég nýti tímann sem best og þakka hv. þingmanni. Þingmaðurinn spyr fyrst um það hvort gert sé ráð fyrir að allar stöðvar skimi fyrir leghálskrabbameini og ef svo er, hvaða fagaðilar muni bera ábyrgð á skipuninni. Svarið er svohljóðandi: Það er gert ráð fyrir að boðið verði upp á skimun fyrir leghálskrabbameini á tilteknum heilsugæslustöðvum í öllum heilbrigðisumdæmum. Landlæknir skilaði minnisblaði til mín 22. febrúar í fyrra þar sem lagðar voru fram tillögur að breyttu skipulagi skimana byggðar á ráðgjöf skimunarráðs til embættis landlæknis. Einnig lagði landlæknir til að skipuð yrði verkefnisstjórn til að koma tillögunum til framkvæmda. Tillögur landlæknis sem byggja á ráðgjöf skimunarráðs varðandi leghálskrabbamein eru að leghálsskimanir, þ.e. taka sýna, verði á tilteknum heilsugæslustöðvum og að leghálsspeglanir vegna afbrigða við leghálsskoðun verði gerðar á vegum Landspítala.

Verkefnisstjórnin var skipuð síðastliðið haust og hún á að útfæra fyrirliggjandi tillögur og ákvarðanir um breytt skipulag og stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum. Verkefnisstjórnin áætlar að skila útfærslu sinni nú í febrúar en í stjórninni eru fulltrúar frá embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Landspítala, Krabbameinsfélagi Íslands, leitarstöðinni og heilbrigðisráðuneytinu. Fyrir liggur að taka sýna vegna leghálsskimana verði flutt frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar. Nú þegar fer sýnataka vegna leghálsskimana fram á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarsvæðisins og er að hluta til framkvæmd af útsendu starfsfólki Krabbameinsfélagsins en að hluta til af ljósmæðrum sem starfa á viðkomandi stofnunum. Því verður stærsta breytingin í raun á höfuðborgarsvæðinu þar sem sýnatakan mun færast frá leitarstöðinni yfir til heilsugæslu. Það kallar á þjálfun ljósmæðra í heilsugæslu í sýnatöku og ákvörðun heilsugæslunnar um staðsetningu þjónustunnar.

Þá er rétt að fram komi að um 40% leghálssýna núna eru tekin af kvensjúkdómalæknum á stofum og erfitt að sjá hvort breytt fyrirkomulag muni hafa í sjálfu sér nokkur áhrif á það hlutfall.

Hv. þingmaður spyr um áform um að skima fyrir brjóstakrabbameini á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og hvaða rök séu fyrir því. Tillögur landlæknis sem byggja á ráðgjöf skimunarráðs eru m.a. að brjóstamyndatökur verði gerðar á vegum Krabbameinsfélagsins eða hjá öðrum aðila eftir því hvernig um semst, eins og segir í tillögunum. Frekari rannsóknir vegna afbrigða verði áfram gerðar á vegum Landspítala. Landspítalinn hefur nú yfirumsjón með sérskoðun brjósta og sér Sjúkrahúsið á Akureyri um hluta þeirrar þjónustu og það er ekki gert ráð fyrir breytingum á þeirri tilhögun. Ástæðan fyrir því að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri sjá um þessar skoðanir er sú að Krabbameinsfélagið leitaði eftir aðkomu heilbrigðisyfirvalda í lok árs 2014 til að tryggja að framhald yrði á þessum skoðunum þar sem félagið hafði ekki lengur þann sérhæfða starfskraft sem þarf til að sinna þessari þjónustu. Í bréfi Landspítala til heilbrigðisráðuneytisins í október 2014 kemur fram að Krabbameinsfélagið hafi leitað til Landspítala og óskað eftir aðkomu spítalans að klínískum brjóstaskoðunum en erfiðlega hefur gengið að tryggja framboð sérfræðilækna til þeirra verkefna hjá Krabbameinsfélaginu. Klínískar brjóstaskoðanir eru nátengdar brjóstamyndatökum sem gerðar eru í skimunartilgangi og Landspítalinn taldi því mikilvægt að raska ekki þeim tengslum. Ein möguleg lausn sem Landspítalinn sá var því að Landspítalinn tæki að sér bæði skimanir og klínískar brjóstaskoðanir og töldu sérfræðingar í myndgreiningu það besta kostinn. Heilbrigðisyfirvöld brugðust við með því að leita til Landspítala.

Landspítali tók formlega yfir sérskoðanirnar af Krabbameinsfélaginu í ársbyrjun 2017 og er sú starfsemi staðsett í leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands en áform eru um að flytja þessa starfsemi í húsnæði á lóð Landspítala. Auk þessa liggur fyrir ósk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri um að taka við öllum brjóstaskimunum á landinu, í sérstöku minnisblaði sem forstjórarnir sendu til mín í apríl 2019. Rökin fyrir því eru fyrst og fremst faglegs eðlis. Erfitt sé að fá fagfólk til að sinna þessu starfi svo vel sé og bent er m.a. á að Krabbameinsfélagið hafi þurft að biðjast undan sérskoðunum brjósta vegna skorts á sérhæfðu starfsfólki. Auðveldara sé að viðhalda þekkingunni á sjúkrahúsunum þar sem fleiri starfsmenn eru og til lengri tíma sé líklegra að spítalarnir geti sinnt þessu hlutverki og lendi síður í mönnunarvanda. Myndgreiningardeild Sjúkrahússins á Akureyri hefur sinnt brjóstaskimunum á undanförnum árum ásamt sérskoðunum með tækjum og búnaði í eigu SAK. Það er gert ráð fyrir því að SAK muni áfram sinna sama hópi og fyrr en þær skimanir sem núna fara fram hjá Krabbameinsfélaginu í Skógarhlíð flytjist til Landspítala.

Hv. þingmaður spyr hvort skimunin verði gjaldfrjáls og því er til að svara að núverandi fyrirkomulag er þannig að komugjald greitt hjá Krabbameinsfélaginu vegur ekki inn í almennt greiðsluþátttökukerfi og lækkar því ekki þó að konur beri þar mikinn kostnað. Krabbameinsfélagið hefur verið með tilraunaverkefni þar sem komugjöldin hafa verið felld niður og það er nauðsynlegt að skoða hvort gera eigi breytingu á þessu í samræmi við tillögur skimunarráðs. Og já, það er áfram gert ráð fyrir því að konur verði kallaðar inn til skimunar.