150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:38]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að koma fram með þessa fyrirspurn og fyrir að fá tækifæri til að ræða þetta aðeins. Ég var sjálf með í undirbúningi fyrirspurn til skriflegs svars til ráðherra þar sem ég hef furðað mig töluvert á þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru, ekki síst vegna þess að almennt virðist hafa verið töluverð ánægja með fyrirkomulagið meðal þeirra sem eru að nota þjónustuna, þ.e. meðal þeirra kvenna sem þangað hafa komið. Mér hefur þótt skorta á frekari útskýringar á því af hverju við erum að fara í þessa breytingu. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á forsögu þess máls og ég held að það sé líka gott að fá það í skriflegu svari frá hæstv. ráðherra.

Ég velti fyrir mér hvernig ráðherra hyggist tryggja gæði þjónustunnar. Mér skilst að biðlistar í sérskoðun hjá Landspítalanum hafi lengst. Sá þáttur sem hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) kom inn á varðandi sérhæft starfsfólk er ekki nýr af nálinni og Landspítalinn virðist líka hafa verið í vandræðum með það. Hefur hæstv. ráðherra eitthvað í deiglunni um hvernig á að ráðast að því vandamáli?