150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisúrskurðir og ofbeldi gegn börnum.

355. mál
[17:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Við ræðum hér fyrirspurn sem er ein af þremur fyrirspurnaknippum sem sú sem hér stendur hefur borið fram fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og snúa að vernd barna gegn ofbeldi á heimili sínu, hvort sem það er gegn þeim sjálfum eða þeim sem eru þeim nákomnir og hvort að hagur barna sé nægilega vel tekinn til greina þegar verið er að úrskurða um umgengnisrétt foreldra. Þetta er svona stuttur inngangur. Öll viljum við að velferð barna sé ávallt sett í forgang og öll viljum við virða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þessar fyrirspurnir mínar snúa að því hvort þessum grundvallarverðmætum sé best borgið í núverandi mynd umgengnismála hjá sýslumannsembættunum.

Þetta eru frekar langar spurningar þannig að ég hafði hugsað mér að lesa þær upp áheyrendum til glöggvunar en hlakka til að eiga ítarlega umræðu við hæstv. ráðherra um hvernig þessum málum verði best háttað og hvort það sé ekki eitthvað sem við getum gert betur í þessum málaflokki.

Ég spyr ráðherra, með leyfi forseta, hvort það hafi áhrif á úrskurði í umgengnismálum ef talið er að barn hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi samkvæmt mati Barnahúss. Telur ráðherra að kerfið starfi nægilega heildstætt og í samræmi við lög þegar slík mál koma upp? Við vitum dæmi þess að barnaverndarnefndir t.d. telja sig ekki geta gripið inn í þegar mál eru umgengnismál hjá sýslumanni. Þess vegna spyr ég líka hvort almennt sé tekið nægilega mikið mark á því þegar fram koma áhyggjur eða frásagnir um ofbeldi af hálfu annars foreldris áður en úrskurðað er um umgengni barns við foreldri. Ég spyr einnig hvenær í ferli málsins, áður en úrskurðað er um umgengni við barn, er hugað að því að kanna hvort foreldri hafi hlotið dóm, t.d. fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum. Og að lokum spyr ég ráðherra hvort hún telji að tryggt sé að barn sem greinir frá ofbeldi og vill ekki hitta foreldri sitt fái að njóta vafans þegar úrskurðað er um umgengni og barn sé ekki skikkað til umgengni við foreldri sitt.

Fyrir samhengi hlutanna þá koma þessar spurningar út frá mjög ítarlegri umfjöllun Stundarinnar þar sem finna má frásagnir þolenda kynferðisofbeldis sem voru neyddir til að umgangast foreldri sitt og sömuleiðis vegna baráttu samtakanna Líf án ofbeldis sem mig minnir að hæstv. ráðherra hafi fundað með líka. Ég held að við eigum hérna sameiginlegan flöt á að ræða saman um hvernig við getum gert betur. Ég spyr því ráðherra kannski bara í fyrstu atrennu þessara fjögurra spurninga, (Forseti hringir.) en þær eru að sjálfsögðu fleiri sem koma eftir því sem fram líða stundir.