150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisúrskurðir og ofbeldi gegn börnum.

355. mál
[17:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar líka að nefna að það er gaman, virðulegur forseti, að við séum að nýta þennan mánudag í fyrirspurnatíma, þetta er oft allt of stutt og oft ekki nægilega margar fyrirspurnir sem liggja fyrir. En mig langar líka að geta þess að hér er um það ítarlega fyrirspurn að ræða að það er næstum því þannig að ég hefði viljað fá svar líka skriflega. En ég hyggst þá lesa ræðuna sem hæstv. ráðherra flutti áðan.

Virðulegi forseti. Mig langaði bara að nefna, þetta er svo stuttur tími, að ég skil mjög vel og fagna því að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi komið með þessar fyrirspurnir því að þessar sögur sem við höfum verið að heyra í fjölmiðlum eru náttúrlega hrikalegar. Hvert og eitt mál er einu máli of mikið. Það sem er alltaf erfiðast við slíkar sögur er að þær eru náttúrlega bara önnur hlið málsins og hvort sem það eru barnaverndarnefndir, Barnahúsið eða aðrir opinberir aðilar þá eiga þeir engin tök á að fara inn í umræðuna. Þar af leiðandi er mjög gott fyrir okkur þingmenn að fá góða yfirferð yfir það hvernig þessir aðilar vinna. En við þurfum svo sannarlega að hafa líka eftirlit með því og sjá til þess að hagur barna sé alltaf hafður í fyrirrúmi.