150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

málsmeðferð hjá sýslumanni í umgengnismálum.

357. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég spurði einmitt út í það hvaða áhrif tilkynningar um ofbeldi af hálfu eins foreldris gagnvart öðru hefðu á málsatvik og úrskurði. Ég er að vísa í sögu frá konu sem hefur eytt töluverðum tíma í að upplýsa okkur um hvernig hennar málsmeðferð var og við höfum skoðað úrskurði frá dómsmálaráðuneytinu þar sem horft er fram hjá því að konan hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig og þar sem horft er fram hjá því að hjá lögreglu lágu bæði kæra og tilkynningar um ofbeldi gegn maka. Ekki er litið almennilega til þess í rökstuðningi frá ráðuneytinu og ekki heldur frá sýslumanni, heldur er frekar fallist á áfellisdóm yfir konunni yfir því að hafa tálmað umgengni við manninn sem beitti hana ofbeldi. Þarna er ég að tala um Sigrúnu Sif sem er forsvarsmaður Lífs án ofbeldis og það vekur að sjálfsögðu áhyggjur að lesa um slíka málsmeðferð, sér í lagi vegna þess að í meistararitgerð frá Elísabetu Gísladóttur um umgengnismál frá árinu 2009 kom fram að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kvað upp a.m.k. fjóra úrskurði, á árunum 1999–2009, þar sem sérstaklega var tekið fram að ofbeldi eða grunur um ofbeldi föður gegn móður hefði almennt engin áhrif á umgengni. Þessu ástandi átti að breyta með lögunum frá 2012 þar sem skerpt var á réttindum barna til verndar gegn ofbeldi. En það sem er svo bagalegt, hæstv. forseti, er að við höfum engin gögn til þess að styðja það hvort brugðist hafi verið við með þessum hætti vegna þess að sýslumaðurinn segist ekki hafa neinar upplýsingar um þetta. Við getum ekki kannað hvort þessi lagabreyting hafi haft tilætluð áhrif, að ofbeldi annars foreldris gegn hinu hafi áhrif á umgengni. Okkur vantar gögnin.