150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisréttur og hagur barna.

358. mál
[18:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er rétt að ég hef komið sérstaklega inn á fyrri spurninguna áður og vil bara ítreka að mat sýslumanns og dómara á ofbeldishættu ræðst af þessu heildstæða mati á öllum gögnum málsins. Samkvæmt því samtali sem ég hef átt við sýslumenn er ávallt litið til allra þeirra gagna sem vísa til þess að um ofbeldi sé að ræða og vægi þeirra metið með hliðsjón af innihaldi þeirra. Gögn frá Barnahúsi og lögregluskýrslur eru talin mjög mikilvæg í slíkum málum og það er mikilvægt að svo verði áfram. Ef það þarf að skýra það enn frekar er það til skoðunar í ráðuneytinu. Það er mín skoðun að við getum alltaf gert betur og eigum alltaf að vera að skoða kerfið okkar, t.d. út frá þeim dæmum sem við sjáum, þar sem þetta eru, eins og fyrr sagði, bara lög og reglur og framkvæmd um líf fólks.

En seinni spurning hv. þingmanns var um það hvernig foreldri getur tryggt að barn þurfi ekki að umgangast hitt foreldrið ef yfirvöldum hefur verið greint frá ofbeldi þess og samkvæmt 3. mgr. 28. gr. barnalaga felur forsjá barns í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrar geta gert samning um að umgengni njóti ekki við ef þau eru sammála um það. Þá getur það foreldri sem barn býr hjá sem telur umgengni við hitt foreldrið vera andstætt hagsmunum barnsins farið fram á að sýslumaður úrskurði um að engin umgengni sé við það foreldri. Einnig getur það foreldri farið fram á slíkt sem hluta af kröfum í forsjár- eða lögheimilismáli fyrir dómstólum, en undir rekstri umgengnismáls getur aðili krafist umgengnisúrskurðar til bráðabirgða sem gilda skal tímabundið eða þar til mál er endanlega ráðið til lykta. Sýslumenn eða eftir atvikum dómarar rannsaka framkomnar upplýsingar og ásakanir um meint ofbeldi og meta áhrif þess á umgengni, hvort umgengni skuli fara fram undir eftirliti sérfræðinga í málefnum barna í fyrstu eða hvort umgengnisréttar skuli ekki njóta við. Og það er mikilvægt að sýslumenn geti alltaf leitað til sérfræðinga í málefnum barna til að aðstoða við þetta heildstæða mat og um þau gögn sem fram koma eða til viðtals við börnin til að þau fái þann rétt að tjá sig eða til að vera með eftirlit í umgengninni.

Það er mikilvægt að við skoðum þetta og höfum þessi umgengnismál öll til sérstakrar skoðunar, af því að það er líka mikilvægt að við getum sett, sem er þá í takt við fyrri fyrirspurnina varðandi sýslumannsembættið í heild sinni, meiri þunga í þessi mál, lagt meiri áherslu á að þau gangi betur, gangi hraðar fyrir sig, að öll réttindi séu tryggð. Það getum við gert með því að færa önnur verkefni til og reyna að létta á því embætti sem sér sérstaklega um þessi mál. Ég sé tækifæri til að gera betur og á gott samtal við þá hópa sem hafa lýst óánægju með kerfið og við sýslumenn sem vilja gera betur. Við eigum í stöðugu samtali og erum að skoða þessi mál út frá því.