150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisréttur og hagur barna.

358. mál
[18:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka líka fyrir þessa umræðu hjá málshefjanda og svör hæstv. ráðherra. Ég kom hingað upp fyrst og fremst út af umræðunni um tálmun, hvort slíkt væri ofbeldi eða ekki. Nú er ég einn af meðflutningsmönnum á slíku frumvarpi og það er mín skoðun að það eigi að vera réttindi barna að umgangast báða foreldra sína en heilsa og velferð barnsins hlýtur þó alltaf að vera númer eitt, tvö og þrjú. Ég á því erfitt með að skilja að opinber aðili úrskurði að velferð barns sé fólgin í því að umgangast einhvern sem er talinn hafa beitt viðkomandi ofbeldi. Þess vegna hefði ég svo gjarnan viljað taka þá umræðu út frá umræðunni um svokallað tálmunarfrumvarp. Það á enginn að vera í þeirri stöðu að þurfa að beita einhverjum svoleiðis úrræðum.

Ég tek bara undir það sem fram hefur komið í umræðunni. Það er mikilvægt að ræða þetta af yfirvegun og sýslumannsembættin þurfa að hafa þekkingu, tíma og fjármagn til að takast á við þessi erfiðu og flóknu verkefni.