150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

umgengnisréttur og hagur barna.

358. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegur forseti. Ég hefði líka gjarnan viljað halda þessari umræðu frá tálmunarumræðunni eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir minntist á. En mér finnst ekki endilega hægt að aðskilja þessi tvö mál og ég vísa í umsögn ríkissaksóknaraembættisins um forvera þess frumvarps sem hv. þingmaður er aðili að núna sem sneri einmitt að því að skilgreina tálmum sem ofbeldi. Í umsögn ríkissaksóknara segir að sú háttsemi að tálma eða takmarka umgengnisrétt foreldris við barn sitt geti falið í sér andlega vanrækslu. „Þar er um að ræða allt annars konar mál en ofbeldismál samkvæmt skilgreiningar- og flokkunarkerfi barnaverndarmála sem Barnaverndarstofa styðst við, en þar er raunar hvergi minnst á umgengni eða umgengnistálmanir. Barnaverndarnefndir nálgast tálmun eina og sér ekki sem ofbeldi gegn barni og lögfræðingar sem Stundin hefur rætt við“ — og þarna er ég að vísa í Stundina, afsakið, ég gleymdi að skipta á milli, virðulegi forseti — „kannast ekki við nein dómafordæmi sem gefa tilefni til slíkrar túlkunar.“

Það veldur mér áhyggjum þegar lagaheimild er ekki til staðar, burt séð frá því hver skoðun okkar er um hvort hún ætti að vera til staðar eða ekki, að það sé notað sem rökstuðningur frá sýslumannsembættinu við að tilkynna til barnaverndarnefnda ofbeldi móður gegn barni. Ef lagastoð er ekki fyrir hendi vantar eitthvað upp á hjá sýslumannsembætti sem notfærir sér hugtak sem ekki er stutt með lögum.

Og vegna þess að hæstv. ráðherra talaði um að það væri mjög mikilvægt að tryggja að börn séu ekki neydd til að umgangast ofbeldismenn vil ég bara ítreka að mér finnst það þurfa að koma mjög skýrt fram að það þarf að standa í gagnaöflun í þessu, miðað við svör sýslumannsembættanna um að það liggi ekki fyrir hvort börn hafi verið neydd til að umgangast foreldri sem hefur jafnvel verið dæmt fyrir kynferðisbrot gegn því. (Forseti hringir.) Sýslumaður veit ekki hvort það hefur átt sér stað.