150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við Íslendingar losum mest allra Evrópuþjóða af gróðurhúsalofttegundum á hvern íbúa. Með okkur á báti eru bara Norðmenn af Evrópuþjóðunum, sem rétt tylla sér um borð og auka með okkur losun frá lokum níunda áratugarins. Þetta kemur fram í splunkunýrri skýrslu norræna rannsóknarsetursins Nordregio um ástand norðursvæðisins sem unnin var fyrir atbeina Norrænu ráðherranefndarinnar og birt var í dag og m.a. Vísir greinir frá.

Í skýrslunni kemur fram að losun á Íslandi hafi aukist um 32% frá 1990–2017 en aukist bara lítillega í Noregi eða um 3% á sama tímabili. Þennan vöxt í losun á Íslandi megi fyrst og fremst skýra með auknum umsvifum í orkufrekum iðnaði eins og álframleiðslu. Þá jókst losun vegna samgangna um 57% á Íslandi á árunum 2000–2017 og þar eru m.a. erlendir ferðamenn taldir koma til sögunnar. Orkunotkun vegna húshitunar jókst um 22% á sama tímabili.

Skýrsluhöfundar Nordregio telja þróun í orkunotkun og losun á Íslandi ekki vera í samræmi við yfirlýst markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040. Ætli Íslendingar sér að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum þurfi þeir heldur betur að gyrða sig í brók og innleiða í alvöru þá tækni sem þegar er möguleg og þekkt er hér á landi til kolefnisbindingar og geymslu í þungaiðnaði.

Virðulegur forseti. Ekki má gleyma jákvæðum þáttum og þeim atriðum þar sem við erum á góðu róli. Ísland er fremst Norðurlandanna hvað varðar endurnýjanlega orku með 72% hlutfall og af því getum við verið stolt. En á öðrum sviðum þurfum við að taka okkur saman í andlitinu.