150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

almannatryggingar.

83. mál
[14:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um almannatryggingar, um frítekjumark vegna lífeyristekna. Þetta er eitt af mikilvægustu málunum sem hafa verið lögð hérna fram vegna þess að þetta mál skiptir þann hóp mestu máli sem verst hefur það í lífeyrissjóðakerfinu. Hverjir standa þar verst að vígi? Því miður eru það kvennastéttir eins og hefur komið hérna fram. Það segir okkur þá sögu að allt tal okkar um jafnrétti launa og annað er hjómið eitt. Það hefur því miður komið skýrt fram á undanförnum árum og áratugum að það sem er sagt í stjórnarandstöðu gildir ekki þegar menn komast í stjórn. Það sem sagt er í þessum ræðustól eða flokkum gildir ekki þegar maður er kominn í stjórn í borginni. Það er sem sagt ekki sama hvort menn tilheyra séra Jóni eða venjulega Jóninum. Að segja fólki ár eftir ár og áratugum saman að reyna að lifa af 250.000 kr. eftir fullan vinnudag er algjörlega ömurlegt og eiginlega til háborinnar skammar. Það er enn þá meiri skömm þegar sagt er við þá sem eru veikir og eldri borgara sem ná ekki fullum réttindum hjá Tryggingastofnun að þeir eigi að lifa af 200.000 kr. og jafnvel undir 200.000 kr. á mánuði. Þar erum við því miður að tala um hóp fólks, sérstaklega vinnandi fólks, sérstaklega kvenna í láglaunastörfunum. Þær vinna árum og áratugum saman, brenna upp í erfiðisvinnu á lágmarkslaunum. Hvað gerum við svo þegar þessir einstaklingar fara á eftirlaun? Þeir hafa það enn þá verra. Kerfið er búið að búa þannig um hnútana að skattar, skerðingar og keðjuverkandi skerðingar valda því að fólkið sem hefur ekki getað tórt á sínum venjulegu launum á að reyna að tóra á lífeyrislaunum sem eru undir atvinnutekjum. Þetta er gífurleg óvirðing. Á lífeyrissjóðum öryrkja er 38,9% skerðing, ellilífeyrisþegar með 45% skerðingu. Ellilífeyrisþegar hafa þegar fengið 25.000 kr. frítekjumark sem er lítið og næstum ekki neitt en samt betra en ekkert.

En hvað þýðir 100.000 kr. frítekjumark á lífeyristekjur? Það þýðir að þeir sem eru á lægstu launum í dag og eru að fara á eftirlaun eiga einhvern möguleika á að lifa á þessum eftirlaunum og að auki með 100.000 kr. frítekjumarki á atvinnutekjur værum við að stíga stórt fyrsta skref í því að sjá til þess að stór hópur fólks, sérstaklega konur, gæti lifað með reisn. Maður verður eiginlega kjaftstopp vegna þess að þegar maður lendir í kerfi skatta, skerðinga og keðjuverkandi skerðinga fer maður að hugsa hvernig í ósköpunum hafi verið hægt að búa þetta kerfi til. Hverjir fundu það upp? Látum vera þótt þessir einstaklingar hefðu fundið upp þetta kerfi og búið það til en hvers vegna í ósköpunum láta þeir það viðgangast ár eftir ár, áratugum saman og breyta því ekki? Er það vegna þess að þeir sem öllu ráða eru búnir að koma sér svo vel fyrir að þeir þurfa engar áhyggjur að hafa? Þeir hafa það bara fínt. Þá erum við búin að búa til, eins og ég sagði í ræðu fyrr í dag, tvöfalt kerfi, jafnréttiskerfi fyrir þá sem hafa það gott og svo sópum við hinum undir teppið og þeir eiga bara að hafa það skítt.

Þá spyr kannski almenningur: Bíddu, af hverju er þetta svona? Málið er einfalt. Þetta er svona vegna þess að þeir flokkar sem hafa verið við völd undanfarin ár lofa öllu fögru en svíkja allt eftir kosningar. Síðan virðast þeir segja eitt í stjórnarandstöðu og annað þegar þeir eru komnir í stjórn. Það virðist ekki breyta neinu hverjir eru við völd. Allir flokkar sem hafa komið á þing hafa komið á einhvern hátt að launasamningum nú þegar í gegnum borgina — og hvað? Við sjáum afleiðingarnar, þar eru engar breytingar. Það er skrýtið og líka óvirðing þegar verið er að reyna að verja þessa stöðu með því að segja að þetta séu lífskjarasamningar sem hafi verið samþykktir. Lífskjör fyrir hverja? Ég spyr: Hvernig í ósköpunum geta það verið lífskjarasamningar fyrir einhvern ef hann getur ekki lifað á því? Það er útilokað að skreyta sig á þeirri vegferð að þetta sé eitthvað sem allir eiga að kyngja. Við erum að tala um að á nokkurra ára tímabili eigi að hækka laun um 68.000 kr. Við erum með launataxta hjá borginni sem eru svo ótrúlega lágir að maður verður eiginlega kjaftstopp. Það eru 280.000 kr. fyrir fulla vinnu og síðan þegar menn eru búnir að vera í fimm ár eða lengur rétt ná þeir að fara yfir 300.000. Þetta segir þá sögu að þegar þessir einstaklingar fara á eftirlaun eru þeir komnir í fátækt. Með því að samþykkja þetta frumvarp og samþykkja að frítekjumark vegna lífeyristekna verði 100.000 kr. koma þeir alltaf og segja: Þetta kostar svo mikið, þetta kostar 16 milljarða.

Hvað höfum við gert í þinginu? Við höfum tekið burtu bankaskattinn, lækkað veiðigjöld og alls konar fleira sem við erum að gera, eins og með breytingum á persónuafslættinum. Hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki allt sett á þá sem lægstu hafa launin og þurfa mest á því að halda? Ég spyr t.d. í samhengi við þetta: Hvernig stendur á því að við erum að skatta lægstu laun? Þetta var ekki svona og því miður er staðreynd að skattar hafa stórhækkað og langmest hjá þeim sem síst skyldi, þeim sem eru á lægstu launum og bótum. Þess vegna er mikilvægt að við byrjum en því miður hefur sýnt sig að allar svona góðar tillögur falla yfirleitt og yfirleitt eru rökin þau að þetta kosti of mikið og að ekki séu til peningar. Það er rangt, peningarnir eru til, þeir fara bara ekki á réttan stað. Það segir allt um þá sem hafa völdin á hverjum tíma að þeir skuli greiða atkvæði á þennan veg og ég bið almenning að fylgist með því vegna þess að það eru þeir sem eru þarna úti, almenningur, sem geta breytt þessu með því að sýna í verki í næstu kosningum að þeir ætli ekki að líða enn eitt tímabilið þar sem verður klekkt á þeim sem síst skyldi, að þeir sem eiga réttmæta kröfu á því að lifa mannsæmandi lífi verði enn einu sinni látnir gjalda þess. Það er stór hópur í fátækt, stór hópur í sárafátækt og ég segi að þetta er okkur til háborinnar skammar.