150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

brottfall ýmissa laga .

529. mál
[14:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall ýmissa lagabálka á verksviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem eiga það sameiginlegt að hafa þjónað tilgangi sínum og því sé rétt að fella lögin á brott. Í frumvarpinu er lagt til að alls 32 lög verði felld úr gildi, þau elstu frá 1926, þau yngstu frá 2008. Hér er um að ræða löggjöf um gjaldeyrismál, eignamál og mál sem tengjast efnahagsráðstöfunum og sköttum. Ýmist eiga ákvæði laganna ekki lengur við eða ráðstafanir sem þau kveða á um eru um garð gengnar.

Almennt er æskilegt að úrelt lög og lög sem ekki eru lengur til neinna þarfa séu felld brott úr lagasafninu. Bæði er það til einföldunar og jafnframt standa röksemdir um réttarvissu til þess að úrelt lög séu formlega felld brott.

Frumvarpið er að uppbyggingu tiltölulega einfalt. Lagaboðin sem um ræðir eru, eins og ég hef hér komið inn á, af ýmsum toga. Þau varða til að mynda ábyrgð á láni vegna stálvölsunarverksmiðju. Eins er hér dæmi um heimild til að selja jarðhús í Ártúnsbrekku og lög um skattfrelsi vinninga í tengslum við happdrættisskuldabréf ríkissjóðs. Þetta nefni ég einungis í dæmaskyni af fjölmörgum tillögum í frumvarpinu. Við undirbúning málsins var lagt mat á gildi hvers og eins af þeim lagabálkum sem um ræðir með tilliti til þess hvort rétt væri og forsvaranlegt að fella það brott. Það verður þá væntanlega viðfangsefni efnahags- og viðskiptanefndar að rýna það enn frekar, en hér hefur verið horft til þess hvort ekki væri öruggt að viðkomandi lög þjónuðu ekki lengur neinum tilgangi í lagasafninu.

Drög að frumvarpinu voru birt á samráðsgátt í nóvember sl. Engar umsagnir bárust. Það má segja að það hafi ekki verið óvænt vegna þess að hér er ekki um að ræða neina eiginlega efnisbreytingu á gildandi rétti og þar af leiðandi ekki auðvelt að sjá einhver sérstök lagaverndarsjónarmið sem átt gætu við.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.