150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

99. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingmannamáli, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta er mál sem tengist sameiginlegri ábyrgð lífeyrissjóða og jafnréttisstefnu þeirra. Þetta frumvarp var lagt fram á 148. og 149. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er því endurflutt nú. Breytingin sem er lögð til hér er í stórum dráttum tvíþætt og fyrri tillagan hljóðar svo:

„Við 1. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Lífeyrissjóður skal setja sér jafnréttisstefnu er nái til fjárfestinga sjóðsins.“

Nú er það svo að í þessari 36. gr. er almennt fjallað um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða þar sem tilgreind eru nokkur atriði sem lífeyrissjóðir skulu hafa í huga, þar með talið að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og að þeir setji sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum, svo að fátt eitt sé nefnt.

Hér er sem sagt verið að leggja til að það bætist við þessi nýi töluliður um jafnréttisstefnu og jafnréttisstefnan nái þá til fjárfestinga sjóðsins. Þessu tengt er í frumvarpinu lögð til breyting á 41. gr. sem tekur til skýrslu stjórnar:

„Við 2. mgr. 41. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: framkvæmd jafnréttisstefnu sjóðsins.“

Hér er þá átt við að í umræddri skýrslu komi fram samhliða yfirliti um starfsemi sjóðsins á árinu og öðrum upplýsingum upplýsingar um það hvernig lífeyrissjóðirnir hafi staðið að framkvæmd þessarar jafnréttisstefnu.

Áður en ég fer nánar í sjálft efni frumvarpsins langar mig til að hafa nokkur orð um þá stöðu sem kemur í ljós þegar valdaþræðirnir í íslensku fjármálalífi eru raktir. Ég ætla að vitna í grein úr Kjarnanum frá því í febrúar á síðasta ári en Kjarninn hefur nú um nokkurra ára skeið birt slíka könnun árlega og ég vænti þess að febrúar sem nú er hafinn verði engin undantekning en þessi könnun er sem sagt ársgömul. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í ár náði hún, líkt og í fyrra, til 90 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Niðurstaðan nú er sú að 80 þeirra eru karlar en tíu eru konur. Konum fjölgar um eina á milli ára … Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir þúsundum milljarða króna og velur í hvaða fjárfestingar þeir peningar rata hverju sinni.“

Þegar litið er til baka nokkur ár sést að munurinn, þ.e. hlutfall karla og kvenna í hópi þessara æðstu stjórnenda, stendur nær í stað. Það hefur lítið sem ekkert breyst á þeim árum sem nýliðin eru sem þó eiga að teljast einhver þau framsæknustu ár sem við höfum lifað í jafnréttismálum. Þessu til viðbótar ætla ég að telja hér upp, tengt þessu máli, nokkrar staðreyndir.

Í Kauphöll Íslands er skráð 21 félag. Þau uppfylla öll skilyrði um kynjahlutföll í stjórnum, eðlilega. Kynjahlutföll hafa verið fest í lög. Í stjórnum sjö félaga eru konur til jafns við karla eða fleiri en karlarnir. En í 16 af þessum félögum eru karlar bæði forstjórar og stjórnarformenn. Í þremur félaganna eru framkvæmdarstjórnirnar eingöngu skipaðar körlum. Engin kona er forstjóri í skráðu félagi í Kauphöllinni. Rétt fyrir síðustu jól birtu Ásta Dís Óladóttir lektor, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson dósent og Þóra H. Christiansen aðjúnkt við viðskiptadeild Háskóla Íslands grein í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla þar sem þau leituðu svara við þeirri spurningu hvort engin eftirspurn væri eftir konum í æðstu stjórnunarstöður.

Í könnun sem lá undir grein þremenninganna og framkvæmd var af þeim meðal kvenkynsstjórnenda í íslensku atvinnulífi komu fram ýmsar hugmyndir um hvernig mætti fjölga konum í stjórnunarstöðum, t.d. að fyrirtækjum á einkamarkaði yrði gert skylt að auglýsa slík störf. Þá var talað um að breyta þyrfti vinnufyrirkomulagi og vinnumenningu á Íslandi og bæta fæðingarorlofskerfið til að auðvelda konum að standa jafnfætis körlum gagnvart forystustörfum. Lífeyrissjóðir voru nefndir til sögu á þann veg að þeim yrði gert að marka eigendastefnu með kynjakvóta í fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í á þann veg að lágmark hvors kyns í framkvæmdastjórnum yrði ekki undir 40%, þ.e. að lífeyrissjóðir fjárfestu ekki í fyrirtækjum þar sem þetta væri brotið. Síðast en ekki síst birtist reyndar í þessari könnun sem vísað er í og síðan greininni mikill stuðningur meðal þessa hóps, kvenkyns stjórnenda, við að Alþingi lögfesti kynjakvóta í stjórnunarstöðum í atvinnulífinu.

En það mál sem er til umræðu hér núna snýst um lífeyrissjóðina okkar. Ég hef fulla trú á því að hin umræðan muni dúkka upp fyrr en síðar. Áhrif lífeyrissjóða í íslensku viðskiptalífi eru veruleg enda eru lífeyrissjóðirnir umsvifamestu aðilar á íslenskum fjármálamarkaði nú um stundir. Þeir eru 22, stýrt af 16 einstaklingum. Þar af eru 14 karlar, tvær konur. Aðeins til að setja hlutina í frekara samhengi, hvað verið er að tala um þegar við tölum um völd og umsvif lífeyrissjóðanna, þá voru eignir lífeyrissjóðanna í lok desember árið 2018 metnar á um 4.240 milljarða. Sjóðirnir halda á stórum hluta skuldabréfa og skráðra hlutabréfa, annaðhvort beint eða óbeint í gegnum sjóði sem þeir hafa fjárfest í og svo hafa þeir, eins og þekkt er, líka fjárfest mikið í óskráðum eignum og sækja mikið á í útlánum til fasteignakaupa, svo að dæmi sé tekið.

Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem hér er vísað í í upphafi, og starfsemi lífeyrissjóða er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur og/eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðunum er þannig falið að fara með almannafé og hafa þar af leiðandi augljóslega samfélagslegu hlutverki að gegna. Þetta hlutverk er viðurkennt og endurspeglast m.a. í umræddri 36. gr. laga sem kveður á um að lífeyrissjóðir skuli hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi og setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að hnykkt verði enn frekar á samfélagslegu hlutverki lífeyrissjóða að því er varðar jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna í samfélaginu með því að kveða á um að sjóðirnir skuli setja sér jafnréttisstefnu sem nái til fjárfestinga viðkomandi sjóða og að sama skapi skuli þess getið í ársskýrslu sjóðanna hvernig framkvæmd jafnréttisstefnunnar hafi gengið, hvernig fjárfestingar hafi samræmst stefnunni. Þannig beri lífeyrissjóðum samkvæmt þessu að skýra sérstaklega forsendur þess þegar fjárfest er í fyrirtækjum þar sem kynjahalli er verulegur meðal æðstu stjórnenda, svo að dæmi sé tekið.

Herra forseti. Í raun ætti svona stefna að vera sjálfsögð og eðlileg í ljósi þess hlutverks sem lífeyrissjóðir gegna í samfélaginu, enda sýna fjölmargar rannsóknir fram á að fyrirtækjum þar sem jafnvægi er í kynjahlutföllum í stjórn og framkvæmdastjórn vegnar almennt betur. Þetta ætti því að falla undir samfélagslega ábyrgð sjóðanna sem nefnd hefur verið. En í ljósi stöðunnar í íslensku viðskiptalífi, í ljósi tölfræðinnar sem ég hef m.a. lesið upp hér og er þekkt og í ljósi þess hve hægt hefur gengið að breyta þessu þykir rétt að mæla sérstaklega fyrir um þessa skyldu lífeyrissjóðanna með lögum.

Herra forseti. Þó að margt hafi áunnist í jafnréttismálum hér á landi er eins og ákveðin svið samfélagsins séu svolítið sér á báti. Dæmi um það er fjármálageirinn. Þær tölur eru sláandi sem sýna að ríflega 90% þeirra sem stýra peningum hér á landi eru karlmenn og í þeim hópi skera lífeyrissjóðirnir sig síðan úr vegna þess að þeir tilheyra öllum almenningi. Lífeyrissjóðirnir hafa, svo að ég árétti það, samfélagslegu hlutverki að gegna, þeir sýsla með peningana okkar og eru gríðarlega umsvifamiklir í viðskiptalífinu í gegnum fjárfestingar sínar. Hér er því lagt til að lífeyrissjóðirnir axli þannig ábyrgð þegar kemur að framgangi jafnréttis í samfélaginu, það sé þannig sem þeir sinni samfélagslegri skyldu sinni á sem bestan hátt og því hlutverki sem þeim er ætlað að gegna í samfélaginu. Það er því lagt til að þessi samfélagslega skylda sé lögfest þannig að lífeyrissjóðum sé gert að setja sér jafnréttisstefnu sem nái til fjárfestinga. Ákvæðið um jafnréttisstefnuna, sem kveðið er á um í 1. gr. þessa frumvarps, er hins vegar ekki nóg. Það þarf að ríkja gegnsæi um það hvernig hún er framkvæmd. Þess vegna er líka hnykkt á því og lagt til að lífeyrissjóðunum verði lögum þessum samkvæmt skylt að gera grein fyrir því í ársskýrslunni hvernig jafnréttisstefnan er framkvæmd. Þannig myndu sjóðirnir t.d. þurfa að útskýra hvers vegna fjárfest er í fyrirtækjum sem uppfylla ekki jafnréttisviðmið. Og mér þykir mikilvægt að það komi fram hér að hér er um að ræða að lögfesta skyldu lífeyrissjóða til að rökstyðja val sitt og ákvarðanir. Það er ekki lögfesting á inngripi í ákvarðanirnar sem slíkar að öðru leyti. Þetta getur því varla talist stórkostleg takmörkun á frelsi þeirra heldur er það einfaldlega krafa, eðlileg krafa, af hálfu eigenda sjóðanna og þeirra sem hagsmuna eiga að gæta að val, ákvarðanir og aðgerðir séu rökstuddar.

Það er skylda stjórnmálanna að vera vakandi yfir því hvernig megi breyta og bæta kerfi almenningi til góðs. Við eigum ekki að láta tiltekin svið samfélagsins þar undanskilin og við eigum ekki að láta það líðast að tiltekin svið samfélagsins festist í kynbundinni misskiptingu.

Í umsögnum sem bárust við málið í hinum fyrri tveimur tilraunum var samhljómur um mikilvægi málsins og þess markmiðs sem þar er sett fram. Hins vegar bar á því að einhverjir teldu að með þessum breytingum væri möguleiki á því að minni áhersla yrði lögð á að fjárfest væri í samræmi við skynsemisregluna — og ég vísa þar t.d. í umsögn Fjármálaeftirlitsins — þ.e. að til að uppfylla þá skyldu að fjárfest sé í fyrirtækjum þar sem jafnvægi er í kynjahlutföllum í stjórn og framkvæmdastjórn sé hætta á að minni áhersla verði lögð á að fjárfesta í samræmi við skynsemisreglu. Hér gætir ákveðins misskilnings sem verður gott að fá að útkljá í vinnu nefndarinnar, þegar málið fer í þinglega meðferð og nefndin fær til sín gesti og ég hef fulla trú á að það takist núna í þriðja skipti. Staðreyndin er sem sagt sú, eins og ég hef ítrekað sagt, að það sem þarf að gera er að rökstyðja ákvörðunina. Við hljótum öll að geta verið sammála um það. Það er í anda skynsemisreglu.

Einstaka umsagnaraðilar hafa líka bent á að það væri rétt að svona lagasetning næði til allra stofnanafjárfesta. Lífeyrissjóðirnir væru þar ekki teknir sérstaklega út fyrir. Ég get alveg tekið undir að það mætti skoða það með tíð og tíma. En munurinn á lífeyrissjóðum og öðrum stofnanafjárfestum er þó sá sem ég hef eytt töluverðu máli í að útskýra og ræða, þ.e. að lífeyrissparnaður er lögbundinn og þess vegna hvílir meiri og ríkari samfélagsskylda á þeim og stjórnendum þeirra.

Herra forseti. Hér er um að ræða þingmál sem allur þingflokkur Viðreisnar stendur að auk hv. þingmanna Andrésar Inga Jónssonar og Helga Hrafns Gunnarssonar. Það er kannski rétt að geta þess að þingmennirnir voru töluvert fleiri þegar málið var lagt fram fyrst. En eins og gengur og gerist fellur nú úr þeim hópi, menn þreytast kannski á þessum síendurteknu framlagningum. Ekki sú sem hér stendur en því er ekki að neita að ég vonast til að ég standi ekki oftar hér og flytji þetta mál án þess að það fái þinglega meðferð og fari alla leið. Ég hef lokið máli mínu núna, herra forseti, og óska þess að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vona og trúi því að það fái góðan og skjótan framgang þar.