150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

viðgerðir á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða.

126. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingmannamáli, þingsályktunartillögu sem er ætlað að svara endurteknu ákalli um aðgerðir gegn tjóni af völdum aksturs og annars ágangs utan vega. Við erum vonandi öll sammála um að slíkt rask sé lítið sem verði að bæta eins og hægt er og sem allra fyrst eftir að því er valdið. Á hverju ári berst fjöldi frétta af sektargreiðslum vegna utanvegaaksturs en tjónið stendur þó oft óbætt um langan tíma, sérstaklega ef því er valdið utan þjóðgarða. Það var í heimsókn þingflokks Viðreisnar hjá samflokksfólki okkar á Austurlandi sem hugmyndin að þessari tilteknu lausn kviknaði og við kunnum því fólki miklar þakkir fyrir hugkvæmni sína og athugul augu, enda er þar um að ræða fólk sem hefur töluverða reynslu af því að vinna í að fjarlæga lýti eftir utanvegaakstur á borð við þau sem við ræðum hér.

Lausnin er svo einföld að það er furða að hún skuli ekki hafa komið fram fyrr. Í sem stystu máli felur hún það í sér að sama fjárhæð og rennur í ríkissjóð vegna sekta fyrir utanvegaakstur verði veitt í sérstakan sjóð, jarðbótasjóð. Staðbundin félagasamtök muni síðan getað fengið úthlutanir úr sjóðnum gegn því að taka að sér framkvæmd viðgerða á skemmdum utan þjóðgarða, að sjálfsögðu með stuðningi aðila sem hafa sérþekkingu til að skipuleggja og stýra slíkum aðgerðum. Við erum hér að tala um íþróttafélög, skátahreyfingar eða alls konar umhverfissamtök sem hafa nóg af áhugasömu fólki sem þekkir vel til til að taka verkin að sér, bæta landið og fá aukið fjármagn í uppbyggingu íþrótta- og félagslífs um landið.

Með mér að tillögunni standa þingmenn Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson, auk þingmanns Samfylkingarinnar, Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, þingmanna Pírata, Björns Levís Gunnarssonar og Helga Hrafns Gunnarssonar, og þingmanns Flokks fólksins, Guðmundar Inga Kristinssonar. Tillögutextinn sjálfur er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að setja eigi síðar en 1. apríl 2020 á fót jarðbótasjóð sem fjármagnaður verði úr ríkissjóði og hafi að markmiði að standa undir viðgerðum á jarðvegsrofi vegna utanvegaaksturs utan þjóðgarða. Ráðherra setji sjóðnum úthlutunarreglur sem m.a. geri félagasamtökum kleift að sækja fé í sjóðinn til að vinna að markmiðum hans.“

Í greinargerð er síðan fjallað nánar um útfærsluna, að ekki minna en sömu fjárhæðir og renna í ríkissjóð vegna sektargreiðslna fyrir akstur utan vega verði veittar í þennan sjóð. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Eðlilegt þykir að fjárframlög í sjóðinn nemi að lágmarki tekjum ríkissjóðs af sektum vegna utanvegaaksturs auk frekari framlaga eftir þörfum. Þar sem fjárhæðir sekta munu ekki í öllum tilvikum duga til að standa straum af kostnaði er mikilvægt að ráðherra leggi mat á það hversu háum fjárhæðum verði varið úr ríkissjóði á hverju ári til viðbótar við fjárhæðir sekta. Jafnframt er mikilvægt að nýta þær upplýsingar sem safnast með tímanum um raunverulegan kostnað við viðgerðir til að endurskoða upphæð sektargreiðslna með það að markmiði að þær standi undir kostnaðinum að því marki sem hægt er.“

Hér er verið að bregðast við því að í upphafi gæti orðið einhver ófyrirséður kostnaðarauki vegna þess að eftir því sem best verður séð eru þær sektargreiðslur sem nú er kveðið á um vegna utanvegaaksturs ekki í beinu samhengi við kostnaðinn sem hlýst af því að laga til. Þeim gögnum hefur ekki verið safnað þannig að hér er mælst til þess að það sé gert jafnhliða enda eðlilegt að þegar á annað borð er um að ræða skemmdir og ljóst hver veldur þeim beri þeir aðilar kostnaðinn.

Gert er ráð fyrir því að framlög í sjóðinn nemi fjárhæðum sekta óháð því hvort tjóni sé valdið innan þjóðgarða eða utan. Þeim verði þó eingöngu varið til viðgerða á skemmdum utan þjóðgarða. Í fyllingu tímans, og þegar nákvæmari gögn liggja fyrir um umfang tjóna og kostnað við viðgerðir á þeim, verður jafnframt unnt að ákvarða sektarfjárhæðir í samræmi við kostnaðinn sem fylgir viðgerðum. Þá verður hægt að taka afstöðu til þess hvort lækka megi framlög til þjóðgarða sem nemur viðgerðakostnaði vegna utanvegaaksturs og heimila úthlutanir úr sjóðnum til viðgerða innan þjóðgarða. Það eru vangaveltur síðari tíma. Fram að því teljum við rétt að úthlutunum verði eingöngu varið til þeirra svæða sem nú njóta engra fjárveitinga til nauðsynlegra viðgerða á skemmdum vegna utanvegaaksturs.

Ég hef lokið yfirferð minni, herra forseti, og óska þess að málinu verði vísað til þinglegrar meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd og muni í kjölfarið hljóta snögga og góða afgreiðslu frá Alþingi.