150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nefnilega ákveðin spéhræðsla varðandi launin. Í launaviðtali er þetta svona störukeppni, hvor er á undan að segja einhverja upphæð. Ef sá sem sækir vinnu er á undan, var hann þá að nefna miklu lægri upphæð en atvinnuveitandi var tilbúinn að fara í? Það er alltaf áhugavert að skoða. Í öllum þeim ritrýndu greinum sem ég hef farið í gegnum um launaleynd o.s.frv., því að rökin sem ég hef fengið á móti eru að það minnki í rauninni samningsfrelsi fólks til að ná betri launum ef það er alveg opið hvaða laun eru í gangi, en rannsóknir benda hins vegar til hins gagnstæða, að laun séu almennt hærri í umhverfi þar sem er ekki launaleynd. Þess vegna finnst mér alla vega mjög augljóst að styðja þessa tillögu og taka þetta skref því að það er skref í átt að betri kjarabaráttu, sérstaklega fyrir fólk sem er á lægstu laununum og er yfirleitt í verstu stöðunni í samningum um eigin laun. Þannig að mér líst mjög vel á þetta.