150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

stjórn fiskveiða.

118. mál
[17:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hérna frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, tillögu um strandveiðar. Það hefur komið upp sú furðulega staða að það skuli vera sett bann á veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Maður verður eiginlega orðlaus yfir því hvernig mönnum hefur getað dottið þetta í hug og ég fór að hugsa: Hvernig fundu þeir út þessa daga? Mér datt helst í hug að föstudagarnir hefðu verið valdir vegna þess að þá á maður að fasta, á laugardegi áttu að fara í bað og á sunnudegi áttu að fara í messu. En þetta getur ekki verið svona einfalt. Samt er þetta óskiljanlegt vegna þess að ef við horfum á hvernig þetta er þá er það veðrið sem skiptir öllu máli. Við eigum að treysta þeim sem stunda þessar veiðar til að gera það á þann hátt sem þeim hentar en ekki hvað okkur hér í þingsal hentar. Ekki erum við að taka þá áhættu að þurfa að fara út í kannski vályndu veðri vegna þess að það mátti ekki fara þegar það var logn á sunnudegi.

Við erum búin að búa til alveg stórfurðulegt nýtt orð sem glymur í þáttum og heyrðist meira að segja á Stöð 2 í gær, þ.e. brothættar byggðir. Hvers vegna eru þessar byggðir orðnar brothættar? Jú, þegar menn fara að skoða byggðir sem eru brothættar er það yfirleitt vegna þess að kvótinn hefur farið frá þeim. Það er enginn kvóti, það er lítill byggðakvóti. Og eiginlega það eina sem ríkinu eða öðrum hefur komið til hugar til að taka á þessum brothættu byggðum er að það komi styrkir. Þú getur farið í bjórframleiðslu eða landaframleiðslu eða eitthvað annað en á sama tíma spriklar þorskurinn fyrir utan og þú mátt ekki veiða hann. Ókei, þetta er mjög gott, komum upp brugghúsum og landahúsum og ég veit ekki hvað og hvað og sýnum þetta túristum og öðrum, en við eigum að sjá til þess og treysta fólkinu í þessum litlu þorpum fyrir því að það geti farið út fyrir hafnargarðinn hjá sér og veitt þorsk, veitt fisk. Við eigum t.d. að gefa frjálsar strandveiðar, handfæraveiðar, t.d. með fjórar rúllur á bát. Þetta eru vistvænar veiðar, eiginlega það vistvænasta sem við gætum gert, og það er engin hætta, held ég, á því að við tæmum fiskimiðin á þann hátt. Þetta myndi hjálpa stórlega þessum svokölluðu brothættu byggðum sem er búið að búa til.

Síðan er það algert öryggisatriði að vera ekki með banndaga. Við eigum að sjá til þess, öryggisins vegna, og treysta sjómönnum sem eru í þessu til að velja þá daga sem henta best. Hvort sem banndagarnir eru vegna þess, eins og kom hér upp í umræðunni, að þá sé fiskmarkaðurinn ekki opinn þá er það engin afsökun, þá bara opnum við fiskmarkaðinn. Margar af þessum byggðum þar sem eru veiðar hafa sýnt ótrúlega hugvitssemi og maður sér það að þar er harðfiskframleiðsla og alls konar framleiðsla úr fiski, en það sem hefur háð mörgum þessum byggðum er að það er ekki regluleg veiði sem kemur á land. Þess vegna hefur verið svo erfitt fyrir margar byggðir að halda uppi atvinnu. Það er þetta sem við eigum að tryggja, við eigum að sjá til þess að skila til baka stórum hluta af þeim kvóta sem hefur verið tekinn frá þessum byggðum, bæði fyrir vestan, austan og norðan. Þetta eru byggðir sem hafa í gegnum árin getað veitt en síðan hefur kvótinn safnast á fáar hendur og byggðirnar sitja eftir sárar. Þá komum við stjórnmálamenn og köllum þetta brothættar byggðir og ætlum að fara að reyna að finna upp einhverjar aðrar aðferðir til að hjálpa þeim. Í þessu tilfelli með strandveiðarnar hefur ekki verið hægt að veiða allan þann fisk sem stóð til boða og það er sorglegt. Ég myndi telja að aðalástæðan fyrir því að þetta náist ekki sé vegna þess að við settum inn þessa stórfurðulegu daga sem má ekki veiða á.

Ég vona heitt og innilega að þetta frumvarp fari í gegn og ég vona líka heitt og innilega að við höldum áfram þessari umræðu og tökum hana á næsta stig og ræðum hvernig eigi að tryggja það að þessar brothættu byggðir fái aftur sinn kvóta og geti veitt þann fisk sem er fyrir utan þeirra byggðarlag, þeim til hagsbóta og öllu þjóðfélaginu. Það segir sig sjálft að við eigum að einbeita okkur að þessu. Það er kominn tími til að skila þessum kvóta heim til þeirra sem áttu hann. Það vona ég að verði næsta skref.