150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

meðferð sakamála.

140. mál
[18:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður er einkar laginn í því að hlaupa út og suður með mál og festa sig í einstaka setningum og láta eins og þær skipti einhverju máli, eins og það að Héraðsdómur Reykjavíkur sé við Lækjartorg, sem er algjört aukaatriði í þessu máli. Ég fór ágætlega yfir það að ég veldi það embætti af handahófi, af því að ég get nánast bent á það hér út um gluggann. Það skiptir engu máli hvar héraðsdómar eru. Þeir eru hins vegar í almannarými. Þannig er það.

Framsýnn eða ekki, forseti, að einhverju leyti er hægt að tala um framsýni, held ég, reyndar ekki í því hvar sérstök starfsemi er stödd. En hvað það varðar er það ekki endilega mín skoðun eða hv. þingmanns á því hvað almenning varðar um sem má ráða umfjöllun blaðamanna. Að einhverju leyti er það líka bara að fylgjast með fréttum af dómum, t.d. í Héraðsdómi Reykjavíkur, og um rétt blaðamanna til að fjalla um ákveðin málefni, jafnvel þó að einhverjum hafi ekki þótt þau málefni eiga erindi við almenning. Þannig er það mjög oft, hv. þingmaður. Mörgum sem sitja í þessum sal þykir að fréttir af þeim, bæði hér og í einkalífinu, eigi ekkert erindi við almenning. Það er bara ekki þeirra að segja um það. Til þess höfum við heilt kerfi.

Aftur segi ég, forseti, af því að hv. þingmaður kýs að heyra ekki allt sem ég segi: Öllum þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur nefnt hér varðandi t.d. vitni, ef það er (Forseti hringir.) saklaust fólk sem fer inn í þingsalinn, má mæta með því að dómari geti bannað það. En hv. þingmaður virðist ekki sjá grundvallarmuninn á því að eitthvað sé bannað (Forseti hringir.) en svo megi leyfa það og að eitthvað sé leyft en svo megi banna það.