150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skatteftirlit.

[10:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég fagna því að það eigi að gera eitthvað í þessum málum. En ég held að það sé nauðsynlegt að hafa hraðar hendur og taka tvíverknaðinn út því að það er ekki þannig sem við viljum láta kerfin okkar virka, að það sé svo seinvirkt og óskilvirkt að sakborningar sleppi og að refsing sé jafnvel mismunandi eftir því einu hver málstíminn er. Ég hef skoðað það sem er að gerast í Þýskalandi í þessum efnum og ég hvet hæstv. ráðherra til að líta þangað eftir breytingum á þessu sviði.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra út í peningaþvætti og hvernig tekið er á því. Peningaþvætti tengist oft skattsvikum og oft getum við byrjað á að skoða stór peningaþvættismál með því að skoða frumbrotin, sem eru skattsvik. Ég spyr hvort ekki sé betra að halda rannsóknum á peningaþvætti og skattsvikum á sömu hendi.