150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skerðingarflokkar lífeyris.

[10:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan, svo að ég noti orð þingmannsins, er það leikur að tölum. Þegar heildarupphæðir eru teknar saman verður að taka inn í myndina hvað hefur verið hækkað, sem hækkað er um hver áramót, heildargreiðslur til örorkulífeyrisþega, hvort fjölgað hefur þarna inni. Það þarf að skoða þetta á einstaklingsgrunni. Þegar þú tekur heildarsummurnar saman gefur það ekki rétta mynd gagnvart einstaklingum. Hjá einstaklingum sem voru skertir vegna þess að þeir sóttu vinnu á vinnumarkaði og höfðu tekjur er staðan að batna af því að við drógum úr þeim skerðingum. En þegar þú tekur saman heildarsummu í kerfi yfir alla einstaklinga, allar heildarupphæðir, er það leikur að tölum. Það væri fróðlegt að taka ákveðna hópa sundurliðað vegna þess að þá er markmiðið að draga úr skerðingum gagnvart einstaklingunum sem byggja kerfið en ekki að vinna í heildarsummunum sem slíkum. Markmiðið er alltaf að vinna þetta á einstaklingsgrunni.