150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætla að stíga aftur upp til að ítreka að þessi tillaga er ekkert annað en lýðskrum. Menn láta að því liggja að hægt sé að gera samanburð á veiðigjaldi sem greitt er á Íslandi og annars staðar. Hér er hins vegar ekkert veiðigjald greitt en við erum með álögð veiðigjöld. Menn bjóða ekki í veiðiréttinn í einstökum tegundum. Þetta er allt annað mál og veiðigjaldið er ólíkt eftir tegundum og með séríslenskum lögum höfum við ákveðið hvernig við drögum af hagnaði fyrirtækjanna eftir uppgjör fyrir hverja og eina tegund. Þegar menn láta að þessu liggja er eins og þeir gefi sér að allt annað sé óbreytt. Það er allt eins í Namibíu, ekki satt, og Íslandi, stimpilgjöld, tekjuskattur og launaskattar? Hvernig eru kjörin um borð í Namibíu? Hvernig er olíuverðið? Hvernig er skiptaréttur sjómanna í Namibíu? Ætla menn að taka þetta allt með í reikninginn? (Gripið fram í.) Hafa menn í alvörunni áhuga á því að spyrja alvöruspurninga eins og þessarar hér: Hvernig gengur að skapa verðmæti fyrir (Forseti hringir.) íslenska þjóð úr íslenskum sjávarútvegi? Hvernig gengur það? Kannski ættu menn einfaldlega að spyrja: (Forseti hringir.) Hvort landið hefur meira út úr veiðum, Ísland eða Namibía? Þetta er ekkert annað en lýðskrum. Það er verið að bera saman gjörsamlega (Forseti hringir.) ósambærilega hluti og menn eru að reyna að draga inn í umræðuna vegna Samherjamálsins (Gripið fram í.) hluti sem eiga ekkert erindi og veita engar raunverulegar upplýsingar (Forseti hringir.) um stöðu fiskveiða á Íslandi.

(Forseti (GBr): Forseti áréttar að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa eina mínútu til að gera grein fyrir atkvæði sínu eða ræða um atkvæðagreiðsluna.)