150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Áðan var kallað úr sal að ástæðan fyrir svona mikilli gagnrýni á skýrslubeiðni núna væri sú að fólk sé hætt að vanda sig. Ég mótmæli því alveg sérstaklega því að við þingmenn fáum mjög mikla aðstoð frá nefndasviði og skrifstofu þingsins. Það er mjög gott og faglegt ferli sem þingmál fara í gegnum áður en þau koma til atkvæðagreiðslu. Það er óþarfi að gagnrýna þingmennina alveg sérstaklega því að þeir njóta aðstoðar mjög faglegs hóps á nefndasviði og á skrifstofu þingsins.

Hvað þessa skýrslubeiðni varðar er hún mjög almennt orðuð. Það er beðið um skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu miðað við þann grundvöll sem þar er gefinn. Það er mjög frjálst farið með það hvað ráðherra getur gert við þennan samanburð og hvernig hann leggur hann fram. Það er ekkert óeðlilegt við þetta. Hvað varðar það lýðskrum sem var talað um (Forseti hringir.) held ég að því megi vísa aftur til föðurhúsanna með t.d. hópunum Kosningar 2016 og 2017 sem allir sem vit hafa á og taka aðeins menntaða ágiskun vita að eru komnir frá Valhöll.