150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:33]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef líklegast undantekningarlaust stutt beiðnir um skýrslur. Ég hef einu sinni gert athugasemd við skýrslubeiðni sem hér var lögð fram og það var við skýrslubeiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar með efnislegri athugasemd. Og hvernig brást hv. þingmaður við þeirri athugasemd? Jú, hann dró skýrslubeiðnina til baka, tók tillit til athugasemdarinnar og lagði aftur fram skýrslubeiðni sem var í framhaldinu samþykkt. Ég hygg að hv. þingmenn sem standa að þessari skýrslubeiðni ættu að sækja í smiðju Björns Levís Gunnarssonar þegar kemur að því að skoða sinn hug. Auðvitað er það rétt sem hér hefur komið fram, (Forseti hringir.) að þetta er ómerkilegur pólitískur loddaraskapur sem menn eiga ekki að láta líðast. Ég mun ekki greiða atkvæði með þessari skýrslubeiðni (Forseti hringir.) en ég ætla ekki að koma í veg fyrir að það verði upplýst hvers konar rugl er í gangi.