150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:34]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér tala hæstv. ráðherrar um pólitískan leikaraskap, loddaraskap og lýðskrum. Eigum við að tala um hvað pólitískur leikaraskapur er? Það er það að Namibía sem er með einn þriðja af vergri þjóðarframleiðslu á haus miðað við Ísland virðist vera með hærri veiðigjöld en eru á Íslandi. Svo virðist vera og þess vegna erum við að biðja um þessa skýrslu til að staðfesta það.

Það er loddaraskapur að stöðugt sé verið að lækka veiðigjöld til að hygla einhverjum grátkór útgerðarinnar án þess að fyrir því séu forsendur ef við horfum á önnur lönd þar sem eru stundaðar veiðar. Ef við horfum heilt yfir eru veiðigjöld mjög víða hærri en á Íslandi (Gripið fram í.) og það er alveg fullkomlega eðlilegt að við spyrjum hvers vegna svo sé. Það er það sem er verið að biðja um með þessari skýrslubeiðni. Það er ekki loddaraskapur og ekki leikaraskapur. (Forseti hringir.) Það er ekki lýðskrum, herra forseti, heldur er fullkomlega eðlilegt að Alþingi reyni að komast að því hvað sé í gangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)