150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Kannski er komið nóg af þessari umræðu en ég verð að segja að ég er orðin mjög spennt fyrir að sjá þá ávaxtakörfu sem kann að koma út úr þessari skýrslu. Ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðsluna og það snýr fyrst og fremst að forminu sem mér finnst nauðsynlegt að við tökum til endurskoðunar. Hvað þýðir skýrslubeiðni? Það er rétt að réttur þingmanna er að leggja fram skýrslubeiðni, en það er líka ætlast til þess að þingsalurinn samþykki hana. Þetta hefur ekki fengið yfirlestur hjá neinni nefnd eða þingmönnum. Þetta var bara lagt hér fram í gær og svo á að greiða atkvæði um beiðnina í dag. Mér finnst t.d. sérstakt að samkvæmt þingsköpum hefur hæstv. ráðherra tíu vikur til að skila skýrslu eins og verið er að óska eftir en samt sem áður er hér tekið fram í greinargerð að með skýrslubeiðninni sé í rauninni óskað eftir því að haft verði samráð við þingflokka um óháða aðila sem eigi að mynda einhvern hóp og svo skrifa þessa skýrslu fyrir ráðherrann sem er samt verið að óska eftir skýrslu hjá.

Fyrirgefðu, virðulegur forseti, en mér finnst þetta ekki alveg ganga upp.