150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Vestnorræna ráðið 2019.

534. mál
[13:48]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni Vestnorræna ráðsins, hv. þm. Guðjóni Brjánssyni, fyrir þessa skýrslu. Ég vil líka þakka honum fyrir samstarfið í ráðinu, ekki síst í formennskutíð hans sem hefur gengið afar vel. Það verður að segjast eins og er að ráðið er afar vel mannað, gott samstarf og góður andi sem er auðvitað grundvöllurinn að því að ná árangri. Þannig er nú kannski þetta samstarf vestnorrænu ríkjanna, það grundvallast mjög mikið á því hve samfélögin eru lík. Um er að ræða fiskveiðiþjóðir, við komum úr þeim ranni og þekkjum vel til þannig að við eigum tiltölulega auðvelt með að skilja þankaganginn og stemninguna í samfélögunum sem er afar mikilvægt. Við höfum, vegna stopulla samgangna, kannski stoppað aðeins lengur á þessum stöðum en nauðsynlega hefur þurft en sá tími hefur verið nýttur til að kynnast þeim samfélögum sem við erum að heimsækja hverju sinni. Ég verð að segja eins og er að eftir nokkrar slíkar ferðir finnst mér að það hafi kannski, þegar upp er staðið, skipt mestu máli fyrir viðkomandi þingmann að hafa fengið að kynnast þessum samfélögum jafn náið og raun ber vitni. Það gerir okkur kleift að vera í persónulegum samskiptum við fulltrúa þinga þessara landa. Þannig hef ég sjálfur getað nýtt mér það. Þau kynni geta haft áhrif eða hjálpað okkur í viðræðum í mörgum málum er snúa að efnahag ríkjanna, fiskveiðum og öðru slíku, sem við þurfum líka að geta tekist á um.

Hæstv. formaður ráðsins fór vel yfir starfsemina og þau störf sem við innum af hendi. Ég ætla því ekki að fara sérstaklega yfir það. En ég vildi þó aðeins taka undir það sem fram kom í ræðu hans er varðar nágrannalönd okkar við Norður-England, Skotland og Hjaltlandseyjar, og Nýfundnaland og Núnavút, sem er nágranni Grænlands og er sjálfstjórnarhérað í Kanada, að á fundi okkar í janúar 2019 í Reykholti var hópnum skipt upp í vinnuhópa og þar ræddum við hvernig við sæjum framtíð Vestnorræna ráðsins fyrir okkur. Þar komum við inn á það tungumál sem við myndum nota á fundum en við notum dönsku eða skandinavísku á fundunum. Það verður að segjast eins og er að það hefur líka þjálfað okkur upp í það að ná bærilegum tökum á því, auk þess sem við fáum góða aðstoð okkar fólks sem vinnur við þetta. Það hefur líka óneitanlega þroskað mann sem þingmann, það er ekki spurning.

Mér hefur fundist þessi nálgun sem við höfum aðeins rætt í ráðinu, bæði formlega og óformlega, vera afar áhugaverð. Ég held að það hljóti að vera tækifæri fyrir Vestnorræna ráðið að skoða hvort við eigum meiri samleið með Skotlandi og nálægum eyjum, Hjaltlandseyjum, og síðan þessum ríkjum í vestri sem ég nefndi áðan, Núnavút og Nýfundnalandi. Það er ekkert víst að það sé endilega mikill kostur en ég held að það sé samt tækifæri sem við eigum ekki að láta okkur úr greipum renna að ræða og skoða. Við höfum rætt það, bæði á meðal okkar og á þessum fundum, að eitt og eitt ríki yrði tekið inn og það yrði skoðað hvaða áhrif það gæti haft á slíka fundi og hvort við myndum finna samkomulagsleið. Ég held að við eigum að halda áfram að skoða það og ræða.

Mig langar líka að koma aðeins inn á það, af því að við vorum að koma frá Færeyjum í síðustu viku, að það er mjög gott fyrir okkur að hafa fengið að kynnast Færeyingum betur og því sem þeir eru að gera. Það er afar ánægjulegt að finna þann góða anda sem ríkir í færeysku samfélagi, ekki aðeins hjá íbúunum sjálfum heldur líka meðal stjórnmálamanna. Þeir eru svo ánægðir með það sem er að gerast í Færeyjum. Það skiptir engu máli úr hvaða flokki fólk er, það eru allir svo ánægðir með sig og sáttir við margt sem er að gerast í samfélaginu. Þeir eru sáttir við samgöngurnar, þeir eru sáttir við uppbyggingu laxeldisins og sáttir við þessa stóru þætti. Auðvitað hafa þeir einhvern tímann tekist á um það en þegar það ryk er sest eru menn sáttir og vinna saman í eina átt. Það er alveg gríðarlega magnað að sjá t.d. fyrirtækið Bakkafrost sem er staðsett í Rúnavík, uppbygginguna þar, og ekki bara uppbyggingu heldur þá gríðarlegu starfsemi sem hefur svo mikil áhrif á færeyskt efnahagslíf. Það er gaman fyrir gamlan fiskverkanda að koma inn í þessa stöð sem er að afgreiða frá sér 250–300 tonn af afurðum á dag. Það er eins og mörg stærstu frystihúsin á Íslandi eru að gera samtals. Þetta er því gríðarleg starfsemi og hún er að stóru leyti byggð upp af tækni frá Íslandi. Það sýnir líka hve sjávarútvegurinn á Íslandi hefur haft jákvæð áhrif á nýsköpun þar í landi og skapað tækifæri fyrir útflutning til greina sem eru að verða þungamiðja í rekstri landa eins og Grænlands — Færeyja ætlaði ég nú að segja en Grænlendingar eru væntanlegir á þennan markað líka, trúi ég. Það er kannski heldur of kaldur sjór þar.

Bakkafrost er gríðarlega öflugt fyrirtæki. Það var farið vel í gegnum allan reksturinn með okkur og okkur voru sýndar verksmiðjurnar. Þetta er alveg gríðarlega flott. Þeir framleiða 55.000 tonn á ári, eru sjálfbærir í fóðri, eru sjálfbærir í öllum úrgangi, taka allan lífrænan úrgang, slóg, bein og roð, og vinna hann sjálfir. Það er til fyrirmyndar og við eigum að horfa á hvað Færeyingar eru að gera í þessum málum og við eigum að læra af þeim. Það eigum við líka að gera í samgöngumálunum, við eigum að læra af þeim. Þeir eru gríðarlega montnir af því sem þeir eru að gera þar. Ég verð nú bara að segja að maður verður uppveðraður af því að sitja á fundum með þessu fólki þegar það sýnir manni hvað verið er að gera í gangagerð, Austureyjargöngin 11 km löng, frá Rúnavík og frá Austurey og í áttina að Þórshöfn, munu spara gríðarlegan akstur. Þetta er alveg feiknarlegt verkefni sem þessi litla og fámenna þjóð er að ráðast í. Það er áhugavert að sjá hvernig þeir deila kostnaði niður á íbúana með sérstökum veggjöldum sem sátt er um. Þarna er um að ræða tvær framkvæmdir, annars vegar framkvæmd sem er mjög arðbær og hins vegar framkvæmd sem kannski er ekki eins arðbær, en þetta leggja þeir saman og það taka allir þátt í að borga það niður, hvort sem það er arðbær leið eða óarðbær leið. Ég held að við Íslendingar og við hér í þessu húsi ættum að læra af Færeyingum hvernig hægt er að ná saman um formið á því sem okkur langar að gera. Í þessu landi vilja allir laga samgöngurnar en við finnum aldrei neina leið í því hvernig eigi að borga þær. Allur tíminn fer í að þrátta um það.

Það er margt sem við getum lært af þessu. Það hefur verið óhemjugaman að fá að taka þátt í þessu starfi. Það er gefandi. Það er áhugavert. Það hjálpar okkur. Við sem stóra þjóðin í þessu sambandi getum lært mjög mikið af Grænlendingum og Færeyingum í því sem þeir eru að gera. Auðvitað geta þeir lært margt af okkur og þannig er það í þessu samstarfi að þessar frændþjóðir standa saman og eru að gera fína hluti.

Ég þakka formanninum enn og aftur fyrir samstarfið og góða ræðu.