150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Vestnorræna ráðið 2019.

534. mál
[13:58]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni sem formanni Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir að flytja hér greinargóða skýrslu. Ég ætla jafnframt að þakka okkar ágæta alþjóðaritara fyrir vinnuna á bak við hana og aðstoð hennar við okkur. Við erum jú sex þingmenn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og erum þá með stærstu sendinefndunum, það eru reyndar sjö í Norðurlandaráði. Annars er alþjóðasamstarfið okkar samsett af frá einum og upp í þrjá þingmenn fyrir utan þessar tvær deildir.

Mig langaði aðeins að koma hér inn í umræðuna. Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson fór mjög vel yfir starf okkar á síðasta ári. Það eru mikil tækifæri þarna. Þarna eru þrjár þjóðir sem almennt eru taldar vera litlar þjóðir en umráðasvæði þessara þjóða er mjög stórt. Það er það sem sameinar okkur en jafnframt það sem kannski sundrar okkur í eiginlegri merkingu, hafið hérna á milli. Við finnum það öll að staðsetning þessara þjóða er aftur farin að skipta miklu máli í þessum geópólitíska veruleika og það er þess vegna mjög gaman að hafa slíka tengingu við grænlenska og færeyska þingmenn. Það hafa auðvitað dunið á okkur alls konar fréttir, allt frá einhverjum, ég ætla að leyfa mér að segja fíflaskap Bandaríkjaforseta að vilja kaupa Grænland og svo átökum um fjárfestingar í upplýsingakerfum í Færeyjum sem Kínverjar hafa látið sig varða. Við sjáum þess vegna hversu mikilvægt þetta er og ég held að það séu ýmis tækifæri fyrir okkur til að styrkja hvert annað og styrkja okkur saman sem vestnorrænu ríkin í þessu samstarfi.

Mig langar líka sérstaklega að koma inn á eitt sem er mér mjög mikið hagsmunaatriði og ég held að sé fyrst og fremst ástæða þess að Ísland hefur náð að færa sig frá því að vera eitt af fátækustu ríkjum í Evrópu í að vera eitt það allra ríkasta, en það eru frjáls viðskipti og fríverslun. Við erum í dag með samning við Færeyinga, Hoyvíkursamninginn svokallaða, sem er býsna viðamikill fríverslunarsamningur og með þeim allra viðamestu sem við höfum gert að því leytinu til að hann tekur bæði yfir vöru og þjónustu, hugverk og allt annað. En þetta held ég að sé líka nánast eini samningurinn eða var alla vega fyrsti samningurinn sem Færeyingar gerðu. Það hefur kannski tekið svolítinn tíma að leyfa honum aðeins að þroskast og þróast og það voru þar af leiðandi mjög mikil vonbrigði á síðasta ári þegar Færeyingar sögðu samningnum upp. Sem betur fer hefur sú uppsögn verið dregin til baka í kjölfar stjórnarskipta á færeyska þinginu en þar kom líka bersýnilega í ljós hversu mikilvægt var að við þingmenn í þessu samstarfi þekktumst og gátum rætt saman. Þar kom t.d. í ljós að þekking og vitneskja færeyskra þingmanna um þennan samning var töluvert takmörkuð. Það er eins og þetta mál hafi bara verið inni á borði þáverandi utanríkisráðherra. Vestnorræna ráðið ályktaði einmitt um þennan samning og mikilvægi þess að hann fengi að lifa áfram og ég hefði viljað taka þessa umræðu svolítið lengra í Vestnorræna ráðinu, að við, þessar þrjár þjóðir, ættum allar að gera mikið úr fríverslun. Það er einmitt rétt sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á áðan, það er ofboðslega gaman að fylgjast með færeysku atvinnulífi og fá tækifæri til að koma í Bakkafrost sem er auðvitað langstærsta fyrirtæki Færeyja, en ég held líka örugglega með stærri fiskeldisfyrirtækjum í heimi, og sjá þar framleiðslulínuna sem var að miklu leyti uppbyggð af íslensku hugviti og tækniframleiðslu. Það sýnir einmitt hvar við getum unnið saman, ég tala nú ekki um þegar fiskeldið er að rísa hjá okkur, og ég held að til mikils sé unnið að hafa tækifæri til að læra af reynslu og þekkingu Færeyinga.

Svo langaði mig að nefna eitt sem kom til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í morgun þar sem við vorum með opinn fund með seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra, en þar vorum að ræða áskoranir til framtíðar í hálaunalandi eins og Íslandi og hvernig við getum aukið hagvöxt til framtíðar. Þá komum við að því sem heitir nýsköpun, hversu miklu máli hún skiptir, og menntun. Mig langar að nota tækifærið og segja frá alveg einstaklega skemmtilegri heimsókn okkar í nýjan framhaldsskóla þeirra Færeyinga, sem heitir Glasir, held að ég beri það sirka rétt fram á færeysku. Þarna er í raun búið að setja saman í einn skóla, í alveg gríðarlega fallegri og stórri og mikilli byggingu sem kostaði talsvert mikla peninga, þrjá skóla. Þarna er hefðbundinn menntaskóli eða bóknámsskóli. Þarna er iðnnám, þarna er listnám og þarna er líka í ákveðnum fögum boðið upp á fyrsta stig háskólanáms. Það sem er svo fallegt við þetta, fyrir utan bygginguna, er hugmyndafræðin, að börn þurfi ekki að velja sér ákveðið box heldur geti þau svolítið flætt þarna á milli. Mér finnst þetta svolítið áhugavert í umræðunni sem við höfum átt hér heima, um það hvernig við getum ýtt undir áhuga á iðnnámi og eftirspurn eftir því, þar sem okkur vantar tilfinnanlega að fleiri nemendur velji þann kost að fara í iðn- og tækninám. Þarna er þetta í opnu rými þar sem fólk getur svolítið flætt á milli, ofboðslega áhugavert. Þessi skóli er auðvitað nýopnaður hjá þeim en mér finnst margt benda til þess að þetta geti haft mjög jákvæð áhrif í þá átt að fleiri velji sér iðn- og verknám, annaðhvort eingöngu eða samhliða hefðbundnu bóknámi. Mig langaði að nefna þetta því að þarna held ég að séu tækifæri og eitt af mörgu sem við gætum lært af Færeyingum.

Mig langar líka örstutt að koma inn á kostnað varðandi alþjóðastarfið okkar. Hér á eftir kemur upp hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson sem mun tala fyrir norðurslóðamálum okkar eða þingmannaráðstefnu um norðurslóðamál. Vestnorræna ráðið er með dýrasta alþjóðastarfi okkar. Það er auðvitað vegna þess að þar eru sex þingmenn. Norðurlandaráðið er líka umfangsmikið en stór hluti af þeim kostnaði er greiddur af Norðurlandaráði sjálfu. En við erum í Vestnorræna ráðinu bara að vinna með Færeyingum og Grænlendingum og tökum á okkur stærri hlut, helming kostnaðarins, í kringum þetta, einfaldlega vegna þess að við erum mun stærri. Ástæðan er bæði að það eru margir þingmenn en líka það að ferðakostnaður á vestnorrænu löndunum er hár í samanburði við margt annað og samgöngur eru með þeim hætti að þessar ferðir okkar verða oft lengri en værum við að fara t.d. til höfuðborga einhverra Norðurlandanna eða til Brussel eða eitthvað þess háttar. Þá er nú gott að við höfum getað nýtt tíma okkar í að kynna okkur einmitt, eins og við vorum að segja áðan, atvinnulífið í Færeyjum og menntalífið og kynnast viðskiptum o.fl., og það er gott og við getum nýtt tímann betur. En að sjálfsögðu eigum við að huga að kostnaðarþættinum líka. Ég nefni þetta vegna þess að ég hef lagt til í forsætisnefnd og í utanríkismálanefnd að reglulega sé stokkað upp í alþjóðasamstarfi okkar og hugað að því hvar peningarnir eru á hverjum tíma og áherslurnar ættu að geta breyst.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að mér finnst málefni norðurslóða svo gríðarlega mikilvæg. Ég myndi vilja sjá meiri fjármuni og meiri orku íslenskra þingmanna í þann málaflokk. Við höfum hér í Reykjavík á hverju ári ofboðslega flottan viðburð sem heitir Arctic Circle eða Hringborð norðurslóða og þar hafa íslenskir þingmenn oft og tíðum mætt og tekið þátt. En slíkar ráðstefnur eru haldnar mjög víða um heim og því miður hefur ekki verið forgangsraðað í það að íslenskir þingmenn sæki þær. En mér finnst í raun að það ætti að vera algjört forgangsatriði. Þegar verið er að tala um norðurslóðamál á rödd Íslands alltaf að heyrast og hún á að vera hávær. Sjálf hef ég, virðulegur forseti, nýtt mér tækifærin, ég er til að mynda líka í ÖSE-þinginu og þar hef ég komið með ályktanir og haldið ræður og ýtt á málefni norðurslóða. Ég held að það sé svo mikilvægt að við, þessi tiltölulega fámenna þjóð, notum hvert einasta tækifæri í hvert einasta skipti sem við fáum tækifæri til að tala á alþjóðavettvangi um þau mál sem skipta okkur mjög miklu máli og þar eru norðurslóðamál í þessum alþjóðastjórnmálasamanburði gríðarlega mikilvæg eins og sakir standa.