150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2019.

554. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. ÞEFTA (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða ræðu og góðar spurningar. Þó svo að það sé kannski öfugsnúið ætla ég að reyna að svara þeim vangaveltum sem komu upp. Nú hefur verið í gangi vinna hjá EFTA síðustu árin við að búa til nýjan samningsdragakafla, eða má segja sniðmát fyrir fríverslunarsamninga, sem gengur út á að stuðla að sjálfbærri þróun. Þetta er mjög mikið framfaraskref. Það hafa alltaf verið nokkur ákvæði sem hafa verið lögð til af hálfu EFTA undanfarin ár. En nú er það þessi TSD-kafli, eins og það er kallað, eða Trade and Sustainable Development. Þessi nýi kafli er mjög góður á marga vegu. Auðvitað gæti maður alltaf sagt: Já, en það ætti auðvitað að gera meira. En ef maður lítur á alþjóðaviðskipti og alþjóðasamskipti sem list hins mögulega þá held ég að nokkuð vel hafi tekist að búa til þessi drög. Svo á bara eftir að koma reynsla á það hvernig gengur að fá þriðju ríkin sem við erum í samningaviðræðum við til að samþykkja drögin sem stoð fyrir okkar samningaviðræður. Ég held að í öllu falli þá skipti alltaf máli að við höldum þessum atriðum á lofti. En við þurfum líka að taka mið af því hvað er raunsætt hverju sinni. Það er til mikils að vinna að nota alþjóðaviðskipti til að ýta undir mannréttindamál en á sama tíma eru mörg lönd í heiminum viðkvæm fyrir því og viðkvæm fyrir gagnrýni á sig á þeim nótum. Við þurfum svolítið að sjá til hvernig reynslan verður af þessum TSD-kafla og hversu mikið kemur út úr honum. Svo kemur spurningin um framfylgnina.