150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2019.

554. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. ÞEFTA (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er algjörlega rétt að þessi þrýstingur virkar. Þegar við töfðum t.d. fyrir upptöku fríverslunarsamnings við Filippseyjar, eins og var gert hér, skapaði það ákveðinn þrýsting sem er mikilvægur. Jafnvel þó að reyndin sé sú, sem er reyndin að mínu mati og er mín skoðun, að við viljum fríverslunarsamninga við ríki eins og Filippseyjar, hefur það mikið að segja að ýta aðeins við, þá höldum við þessum sjónarmiðum á lofti.

Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á TSD-kaflanum eða sjálfbærnikaflanum voru breytingar sem snúa að jafnréttisáherslum og skuldbindingum samningsaðila um að virða mannréttindi og lýðræði og réttarríkið samkvæmt helstu alþjóðasamningum. Auðvitað kemur þetta bara inn í stóra samhengið. Í raun geta lönd ekki skikkað hvert annað til að hlýða neinu en við gerum samninga í þeirri von að það sé alla vega gagnkvæmur vilji til að bæta stöðu hvers lands fyrir sig en líka að löndin bæti sjálf sig um leið. Ég held að það sé alveg sama með hvaða hætti við beitum þessari viðleitni, hvort sem það er með því að vera svolítið leiðinleg við Filippseyjar eða Tyrkland eða einhver önnur ríki. Þó að ég sé t.d. mjög ánægður með samning við Mercosur-ríkin get ég alveg ímyndað mér að nýleg vandræði í Brasilíu eigi eftir að koma til umræðu þegar sá samningur verður samþykktur af Alþingi. En í öllu falli skiptir máli að við notum þetta ekki á þann hátt að við segjum: Þetta eru reglurnar og við heimtum að allir fylgi þeim. (Forseti hringir.) Við eigum að nota þetta sem tækifæri til að eiga samtalið. Með því að gera það (Forseti hringir.) mun árangur vonandi nást með einhverjum hætti eftir því sem á líður.