150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Alþjóðaþingmannasambandið 2019.

536. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. ÍAÞ (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Í fjarveru formannsins kynni ég hér skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2019. Ég ætla nú ekki að lesa alla skýrsluna, langt í frá, en ég ætla að fara yfir hvað hefur helst rekið á fjörur þessarar nefndar.

Ég ætla að byrja á því að upplýsa aðeins um sjálft Alþjóðaþingmannasambandið því að það eru í sjálfu sér mjög merkileg samtök. Þessi alþjóðavettvangur er einn af fáum slíkum þar sem þingmenn hafa milliliðalausa aðkomu án afskipta framkvæmdarvaldsins, ef svo má segja. Þetta er vettvangur löggjafarvaldsins víða um heim. Aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga 179 þjóðþing, sum þeirra ekkert sérstaklega lýðræðisleg en mörg eru það að sjálfsögðu. Sömuleiðis eiga 13 svæðisbundin þingmannasamtök aukaaðild að þessu sambandi. Þetta er meira en 100 ára gamall vettvangur þar sem Íslendingar hafa í alllangan tíma tekið talsverðan þátt.

Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Þessi samtök fylgjast t.d. afskaplega vel með þegar þingmenn eru ofsóttir, jafnvel fangelsaðir og í sumum tilvikum drepnir, og hafa fylgst afskaplega vel með því hvernig búið er að þjóðkjörnum þingmönnum um allan heim. Þetta skiptir verulegu máli. Ég held að Íslendingar ættu að leggja talsverða áherslu á þessi samtök og sömuleiðis önnur samtök og nefndir sem hér er verið að fjalla um. Þetta skiptir máli, ekki síst fyrir litla þjóð eins og Ísland sem þarf að reiða sig á alþjóðasamstarf og alþjóðareglur því að við getum að sjálfsögðu ekki farið með miklu valdi um heiminn. Við þurfum að treysta á alþjóðareglur og -samstarf því að við erum smá. Þess vegna skiptir svona fyrirbæri og samstarfsvettvangur á vettvangi Evrópu, Sameinuðu þjóðirnar, NATO og ÖSE mjög miklu máli fyrir Ísland að mínu mati.

Alþjóðaþingmannasambandið, eða IPU, eins og það er kallað upp á ensku, leggur áherslu á að standa vörð um mannréttindi sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. IPU sinnir margs konar ráðgjafarhlutverki gagnvart þjóðþingum og ekki síst gagnvart þeim þjóðþingum sem eru kannski komin talsvert skemur á veg en við. Þessi samtök vinna mjög náið með Sameinuðu þjóðunum. Það eru svokallaðar fjórar fastanefndir á vettvangi þessa sambands, nefnd um friðar- og öryggismál, nefnd um sjálfbæra þróun og efnahags- og viðskiptamál, nefnd um lýðræði og mannréttindamál og nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.

Aðalmenn Íslandsdeildarinnar 2019 voru hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður, en hennar sæti tók, þegar Áslaug varð ráðherra, hv. þm. Sigríður Á. Andersen, en ásamt mér situr einnig hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í nefndinni. Ég sé reyndar að það er villa í skýrslunni, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sagður vera þingmaður Framsóknarflokksins. Við þurfum að uppfæra þetta [Hlátur í þingsal.] nema hér séu að eiga sér stað einhver tíðindi. Við uppfærum þetta. Ég vil sérstaklega í þessu máli mínu hrósa ritara nefndarinnar, Örnu Gerði Bang, sem sér um að halda utan um þetta samstarf og hefur reynst okkur afskaplega vel. Ég vil úr þessum ræðustól hrósa henni sérstaklega fyrir hennar ómetanlegu störf.

Það voru nokkrir fundir eins og gengur og gerist. Íslandsdeildin tók þátt í vor- og haustþingi en ég sótti einnig árlegan fund ungra þingmanna. Ég telst víst enn þá ungur í þessu tilliti. Menn eru ungir fram til 45 ára aldurs. Hv. þm. Sigmundur Davíð er líka einn af ungu þingmönnunum. Í Alþjóðaþingmannasambandinu verður þú víst gamall þegar þú nærð 45 ára aldri og við erum báðir enn þar undir. Þessi fundur var haldinn í september. Ég var beðinn um að halda erindi á þeim fundi og það var afskaplega gaman. Ég var beðinn um að fjalla svolítið um þessi svokölluðu velsældarmarkmið í efnahagslegu tilliti sem íslensk stjórnvöld hafa gert að sínum en ég var einnig beðinn um að fjalla aðeins um efnahagslega þróun Íslands og þær aðgerðir sem Ísland réðist í í kjölfar efnahagshrunsins. Mig langar aðeins að ræða þetta, af því að ég hef bara gaman af því að fjalla um það sem ég fjallaði um á þessum ágæta fundi, en ég upplýsti auðvitað, frá mínu sjónarhorni séð, hvað gerðist hér fyrir rúmlega tólf árum. Það vakti svolitla athygli. Þó að við séum upptekin af hruninu þá vissi kannski ekki allur heimurinn hvað gekk á. En að því sögðu þá var íslenska hrunið það stórt að það er á heimsmælikvarða. Ég held að í hagfræðibókum framtíðarinnar verði hér eftir lítil rammagrein um hið efnahagslega hrun sem átti sér stað á Íslandi. Þetta var það stórt. Þegar tekin eru saman gjaldþrot íslensku bankanna þriggja væri það þriðja stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna þannig að þetta eru ótrúlegar tölur. Tapið sem varð vegna hruns íslensku bankanna er meira en sem nemur allri erlendri aðstoð til Afríku samanlagt, hugsið ykkur. Í Afríku býr rúmur milljarður og mörg samtök og lönd standa að ýmiss konar aðstoð til Afríku. Það var sem sagt hærri upphæð sem tapaðist í íslenska hruninu en heimurinn lætur af hendi rakna til alþjóðastarfs og þróunaraðstoðar í Afríku.

Annar samanburður sem er merkilegur að mínu mati er að ég uppreiknaði Marshall-aðstoð Bandaríkjanna þegar Bandaríkin voru að byggja upp, ekki bara á Íslandi, heldur um alla Evrópu eftir stríð. Í samanburði við þá tölu er tapið sem varð í íslenska efnahagshruninu helmingurinn af allri Marshall-aðstoðinni. Hugsið ykkur, helmingur af allri Marshall-aðstoðinni sem byggði upp Evrópu eftir gereyðingarstríð seinni heimsstyrjaldarinnar. Þetta eru gríðarlega háar tölur á heimsmælikvarða. Við erum 350.000 manns, Bandaríkin 350 milljónir. Þetta setur hlutina svolítið í samhengi, hvað íslensk stjórnvöld voru að glíma við og íslenska þjóðin var að glíma við.

Ég fór sömuleiðis aðeins yfir það hvað hefði gerst. Þetta voru erfiðir tímar og það skipti máli að allir flokkar, alveg til vinstri og hægri og miðjan, komu að uppbyggingu Íslands. Ég held að við eigum að minna okkur á það. Það var tekist á um hin ýmsu mál, ég ætla ekki að fara yfir þau öll, en það voru margar ríkisstjórnir sem komu að uppbyggingu Íslands eftir hrunið og ekki síst íslensk fyrirtæki og almenningur. Auðvitað voru gerð ýmis mistök í því eins og gengur og gerist, en undanfarin ár hefur gengið þokkalega vel á Íslandi. Við höfum upplifað talsverðan hagvöxt þótt hann sé nánast horfinn núna. Við upplifðum mikinn hagvöxt ekki síst vegna uppgangs ferðaþjónustunnar og í öðru lagi dúkkaði allt í einu upp nýr fiskur sem hafði aldrei veiðst á Íslandi, makríllinn, á mjög heppilegum tíma. Þetta skiptir máli og makríllinn er engin jaðarfiskstofn. Um tíma var hann næstverðmætasti stofninn okkar, á eftir þorski. Hann skipti miklu máli til að komast upp úr þessu rosalega höggi sem hrunið var. Þetta hefur vakið alþjóðlega athygli. Paul Krugman, einn frægasti hagfræðingur heims, segir — ég ekki hvort ég má vitna hérna á ensku en ég ætla að leyfa mér það, bein tilvitnun í Paul Krugman þar sem hann er að tala um Ísland, með leyfi forseta:

„Where everyone else bailed out the bankers and made the public pay the price, Iceland let the banks go bust and actually expanded its social safety net.“

Joseph Stiglitz, annar heimsfrægur hagfræðingur og nóbelsverðlaunahafi, segir:

„What Iceland did was right. It would have been wrong to burden future generations with the mistakes of the financial system.“

Ég er ekki að segja að allir þurfi að vera sammála þessu en þetta er þeirra mat, og glöggt er gests augað, um að ýmislegt hafi verið gert rétt hér eftir hrunið. Þetta eru engir aukvisar.

Ég fór aðeins yfir það sem við gerðum að öðru leyti. Hér voru skattar hækkaðir allverulega. (Gripið fram í.) Við gerðum það. Hér voru sett fjármagnshöft. Hér var líka mikið atvinnuleysi eftir hrunið og ég held að við ættum kannski að dusta rykið af þeim aðgerðum sem þá var ráðist í, til að bregðast við atvinnuleysi. Hér voru opnaðir skólar, stuðlað að alls konar þjálfunarprógrömmum til að sporna við atvinnuleysi. Nú sjáum við að atvinnuleysi er á uppleið og hefur tvöfaldast á þessu kjörtímabili. Það er auðvitað ekki orðið eins mikið og það var eftir hrunið en þetta er eitthvað sem við þurfum að passa okkur á. Atvinnuleysi er ömurlegt fyrir viðkomandi aðila. Atvinna er svo stór hluti af sjálfsmynd manns, tilgangi í lífinu og þátttöku í lífinu og hefur að sjálfsögðu bein áhrif á hina fjárhagslegu stöðu, það er nokkuð augljóst. Ég held að við ættum að hafa áhyggjur af þessu öll saman hér í þessum sal því að það vill enginn sjá atvinnuleysi. Þetta var hluti af því sem ég fór yfir á þessari ráðstefnu með ungum þingmönnum og fékk nokkrar spurningar um þetta.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra varðandi þennan hluta, en ég varpaði líka svolitlu ljósi á það í hvaða stöðu Ísland var fyrir 100 árum. Það er svolítið merkilegt að ef við skoðum landsframleiðslu Íslands fyrir 100 árum þá var hún svipuð og hjá Tansaníu, Nepal og Úganda í dag. Við vorum eitt fátækasta land Evrópu, jafnvel í heiminum, eitt af fátækari ríkjum Evrópu alla vega fyrir 100 árum. Við náðum okkur upp tiltölulega hratt. Við erum núna tíunda ríkasta þjóð í heimi. Hugsið ykkur, það er ekkert svo langt síðan. Ég fór 100 ár aftur í tímann. Við getum farið kannski 80 ár aftur í tímann. Landsframleiðsla Íslands fyrir 100 árum var einn sautjándi af því sem hún er núna og sambærileg við Tansaníu, Nepal, Úganda, Kamerún og fleiri lönd, ef við skoðum það í því samhengi. Og hvað gerði Ísland til að komast upp úr þessari fátækt? Það eru auðvitað margar ástæður en númer eitt þá nýttum við auðlindir okkar þokkalega vel. Við nýttum fiskinn, við tæknivæddumst, við fengum okkur góð skip og menntuðum sjómennina okkar og nýttum okkar meginauðlind sem er sjávarauðlindin. Við eigum að vera stolt af sjávarútveginum. Við erum oft að rífast hér um sjávarútveginn og veiðileyfagjöld og annað slíkt en það má ekki gleyma því að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru vel rekin fyrirtæki af vel hæfu fólki. Við eigum að halda því líka svolítið á lofti, því jákvæða sem er að gerast í sjávarútvegi. Það er nýsköpun og verið að stíga ákveðin skref varðandi umhverfismál og annað slíkt. Sjávarútvegurinn verður alltaf hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi.

Í öðru lagi erum við svolítið heppin með nágranna. Við erum nágrannar Norðurlandaþjóðanna og við litum svolítið til þeirra. Stofnanir, lagaumhverfi o.s.frv. skipta svo miklu máli þegar kemur að efnahagslegum stöðugleika og uppbyggingu. Við höfum auðvitað tekið margt upp í okkar kerfi frá Danmörku og öðrum Norðurlöndum. Það eru ótrúleg verðmæti í því. Það eru ekki öll ríki í heiminum heppin með nágranna, ef svo má segja, en við erum það. Við eigum norrænum nágrönnum okkar svolítið mikið að þakka því að „institutions“ sem er svona vítt hugtak, með leyfi forseta, skiptir gríðarlega miklu máli. Hugsum okkur t.d. þurrt fyrirbæri eins og þinglýsingar, þær skipta máli. Af hverju? Það er vegna þess að ef maður ætlar að stofna fyrirtæki og þarf að taka lán þá þarf maður að geta sannað að maður eigi viðkomandi eign svo maður geti veðsett hana, t.d. til að fá lán. Þetta er alveg lykilatriði ef maður er að byggja upp, að eignarrétturinn sé skráður með einhverjum hætti og hægt að treysta á hann og byggja aukinn auð á þeirri eign sem maður á. Svo lagði Ísland talsvert mikla áherslu á menntakerfið og lýðræðislega þátttöku, það var unnið gegn spillingu o.s.frv. Það eru margar ástæður fyrir því hvernig við náðum að vinna okkur tiltölulega hratt upp lista yfir þau ríki sem eru tiltölulega rík. Ég ætla að láta staðar numið varðandi það sem ég talaði um þarna úti í heimi þegar ég var beðinn að tala á þessari ráðstefnu.

Að lokum ætla ég að minna á þær aðgerðir sem IPU, Alþjóðaþingmannasambandið, lagði áherslu á á þessu ári. Það voru ekki síst alþjóðlegar aðgerðir í baráttu gegn loftslagsbreytingum. Það var samþykkt ákveðin neyðarályktun þar sem kallað var eftir aðgerðum þar. Það var sömuleiðis kallað eftir aðgerðum til stuðnings Mósambík, Malaví og Simbabve í kjölfar fellibylsins Idai. Það var lögð áhersla á að efla þingin og frið og menntun. Það var lögð áhersla á barnasáttmálann o.s.frv. Ég ætla nú ekki að fara yfir þetta. Þetta eru allt svo stór og mikilvæg mál sem Alþjóðaþingmannasambandið lagði áherslu á á sínu starfsári á síðasta ári. Íslandsdeildin tók virkan þátt í þessu samstarfi. Ég held að við eigum að gera það af talsverðum krafti eins og við höfum gert í fortíðinni og eigum að halda því áfram, herra forseti.