150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Alþjóðaþingmannasambandið 2019.

536. mál
[15:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að flytja hér skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins. Það er fróðlegt að hlusta þegar verið er að flytja þessar skýrslur um alþjóðasamstarfið okkar og þar af leiðandi er sorglegt hve fá við erum hér í þessum þingsal og hve fáir taka þátt í umræðunum. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort ástæða væri til að breyta eitthvað út af þessu formi og setja þessar skýrslur frekar jafnharðan inn í almenna dagskrá í staðinn fyrir að taka einn dag undir þær.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson er hagfræðingur og hefur mikinn áhuga á þessari umræðu og var ræða hans mjög áhugaverð. Ég bað um að fá að koma í andsvar því að það var áhugavert að heyra að hv. þingmaður hefði farið út og talað um hrunið, sem vissulega var mjög stórt og ég efast ekki um að það fari í sögubækurnar. En það sem ég er viss um að fari í sögubækurnar, og það sem ég er gjarnan spurð um þegar ég er á erlendum vettvangi, og er líka það sem mig langaði að heyra aðeins meira um frá hv. þingmanni, er einmitt sá ótrúlegi árangur sem Ísland náði á stuttum tíma. Eftir hið gígantíska stóra hrun sem varð hér erum við á örskömmum tíma komin í þá farsælu stöðu sem við höfum verið, að upplifa eitt lengsta hagvaxtarskeið sögunnar. Eins og hv. þingmaður sagði þá er ekkert rosalega langt síðan við vorum með allra fátækustu ríkjum í Evrópu en erum nú með þeim allra ríkustu þrátt fyrir hrunið.

Ég held að full ástæða sé til þess, þegar við förum á alþjóðavettvang og ræðum þá atburði sem þarna gerðust, að leyfa fólki að læra af því með okkur, hvað það var sem varð þess valdandi að við náðum þessum mikla árangri á svo stuttum tíma.