150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

staða kjarasamninga.

[15:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í dag stöndum við andspænis verkfalli 1.850 einstaklinga í mjög þýðingarmiklum störfum sem mun hafa áhrif á daglegt líf fólks. Það stefnir í víðtækar verkfallsaðgerðir allt að 20.000 opinberra starfsmanna í BSRB. Við í Samfylkingunni höfum margoft bent ráðherrum á að enn á eftir að mæta stórum hópum sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á, öldruðum, öryrkjum, námsmönnum og auðvitað fjölmennum kvennastéttum. Það vita allir hér inni að fólk dregur ekki eða á í besta falli erfitt með að draga fram lífið á lægstu laununum sem greidd eru á Íslandi. Verðmætamat einstakra stétta er þar að auki í hróplegu ósamræmi við mikilvægi þeirra. Þau sem annast börnin okkar, huga að öldruðum, fötluðum og sjúkum fá langtum lægri laun en réttlætiskennd flestra landsmanna segir til um. Gildismat samfélagsins hefur vissulega breyst frá því að konur sinntu umönnunarstörfum fyrir engan pening en við verðum hins vegar að stíga næstu skref og minnka kerfisbundinn launamun kynjanna, ekki bara innan stétta heldur einnig þvert á stéttir.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig ríkisstjórn hennar ætli að axla sinn hluta ábyrgðar á þeirri stöðu sem nú er uppi. Áformar ríkisstjórnin frekari lagfæringar á skattkerfi í þágu jöfnuðar? Munum við sjá innspýtingu í barna- og vaxtabætur? Munum við sjá róttækar aðgerðir í húsnæðismálum sem tryggja öllum öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði? Og loks: Mun hún beita sér fyrir því að hefja nýja nálgun þar sem horft verði sérstaklega til starfa sem í dag eru stórlega vanmetin og eru að stærstum hluta kvennastörf?