150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

staða kjarasamninga.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil byrja á að segja að það er ljóst að þær verkfallsaðgerðir sem nú standa yfir í Reykjavíkurborg munu hafa áhrif á líf margra og ég vonast að sjálfsögðu til þess að borgin nái samningum við Eflingu í þeirri kjaradeilu sem stendur yfir. Ég hef hins vegar talað mjög skýrt í því að leiðarljós okkar í kjarasamningum okkar við opinbera starfsmenn er lífskjarasamningarnir. Af hverju eru þeir jafn góðir og ég hef talað fyrir? Jú, þar var lögð mest áhersla á að hækka laun lægst launuðu stéttanna og samhliða þeim samningum lagði hið opinbera fram 80 milljarða kr. í ýmsar aðgerðir sem tengjast því sem hv. þingmaður spyr um; í skattkerfisbreytingar sem koma best út fyrir tekjulægri hópa, í hækkuð skerðingarmörk vegna barnabóta og í stóraukin framlög inn í félagslegar lausnir í húsnæðismálum, fyrir utan þau frumvörp sem félags- og barnamálaráðherra hefur boðað á þessu þingi og munu fela í sér breytingar á húsnæðismarkaði fyrir þá sem mest þurfa.

Við erum því enn að vinna að innleiðingu þeirra aðgerða sem við hétum að ráðast í í tengslum við lífskjarasamningana og við höfum sömuleiðis í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir við opinbera starfsmenn haft þá að leiðarljósi. Ég vil þó segja af því hv. þingmaður vísar sérstaklega til kvennastétta að vaktavinna hefur verið til sérstakrar skoðunar, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég held að það sé risastórt mál fyrir stórar kvennastéttir í heilbrigðisgeiranum og líka fyrir aðrar vaktavinnustéttir ef við getum náð fram kerfisbreytingu í því hvernig við metum vaktavinnu. Ég get ekki sagt til um endanlega niðurstöðu þess en leyfi mér þó að segja að ég er hóflega bjartsýn á að við getum náð góðri lendingu sem mun skipta verulegu máli fyrir þessar fjölmennu stéttir.