150. löggjafarþing — 59. fundur,  17. feb. 2020.

staða kjarasamninga.

[15:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Lífskjarasamningarnir eru auðvitað góðir svo langt sem þeir ná en þeir mæta hins vegar ekki þeim væntingum sem fólk gerir til að búa hér og lifa sæmilega öruggt og vel. Hæstv. ráðherra er nokkuð spör á að svara frekar um aðgerðir sem ég spurði hana um. Nú liggur fyrir að fjármálaáætlun verður lögð fram eftir einn mánuð og ég hlýt að spyrja aftur: Munum við sjá skattaaðgerðir í þágu jöfnuðar? Munum við sjá frekari barna- og vaxtabætur? Í dag eru barnabæturnar fátækrastyrkur en ekki jöfnunartæki og vaxtabæturnar eru nánast sagnfræði. Ég hlýt að spyrja: Hvaða aðgerðum hyggst hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir?